Mannanafnanefnd hefur samþykkt karlmannsnafnið Ugluspegil. Nefndin hefur einnig samþykkt kvenmannsnöfnin Susie, List og Silfru sem og karlmannsnafnið Kinan. Beiðni um millinafnið Zar var hins vegar hafnað. „Millinafnið Zar telst ekki dregið af íslenskum orðstofnum og fullnægir því ekki skilyrðum laga um mannanöfn,“ segir í úrskurði nefndarinnar sem kveðinn var upp þann 1. apríl.
Ítarlegur rökstuðningur fylgir ákvörðun nefndarinnar um nafnið Ugluspegil. Er niðurstaðan sú að nafnið Ugluspegill verði „látið njóta vafans“.
Samkvæmt færslu Jón Gunnars Þorsteinssonar, á Vísindavef Háskóla Íslands var Till Ugluspegill söguhetja í þýskri arfsögn frá miðöldum en hann var hrekkjalómur og prakkari sem átti að hafa verið uppi á fyrri hluta 14. aldar. Sögurnar af Ugluspegli bárust víða um lönd og nafn hans hefur fengið merkinguna skelmir, hrekkjalómur og kjáni eins og finna má allmörg dæmi um í textasöfnum úr íslensku nútímamáli. Orðið Ugluspegill virðist því stundum í íslensku hafa fengið stöðu viðurnefnis eða uppnefnis. Að þessu leyti líkist staða nafnsins samnafni en ekki sérnafni, að mati mannanafnanefndar.
Ekki er algengt að viðurnefni séu notuð sem mannsnöfn en þó finnast dæmi um það t.d. Fróði og Góði. Allmörg dæmi eru um það í íslensku að samnöfn séu notuð sem mannanöfn, einkum þegar hefð er fyrir slíku. „Í vissum tilvikum hefur nöfnum sem byggjast á samnöfnum hins vegar verið hafnað. Þannig var í úrskurði mannanafnanefndar frá 29. júlí 2013 í máli nr. 27/2013, því hafnað að færa nafnið Eldflaug í mannanafnaskrá. Þessi niðurstaða var helst studd þeim rökum að samnöfn, sem merkja manngerð tól, séu almennt ekki notuð sem mannanöfn, nema slík nöfn hafi unnið sér hefð í íslensku máli.“
Þá segir nefndin að hún telji það ekki girða fyrir að nafn komist á mannanafnaskrá þótt það eigi rætur að rekja til ævintýrapersóna.
Meðal annars í ljósi þessa verður ekki séð að nafnið Ugluspegill brjóti í bág við íslenskt málkerfi.
Nefndin skoðaði einnig hvort nafnið geti verið nafnbera til ama í skilningi laga um mannanöfn. „Hér verður að horfa til þess að viðurnefni geta verið viðkvæm og niðurlægjandi og ekki er rík hefð fyrir því að greinileg viðurnefni fái stöðu eiginnafna,“ segir í rökstuðningi mannanafnanefndar.
„Þótt dæmi séu um að nafnið Ugluspegill hafi fengið almenna neikvæða merkingu í íslensku, eins og áður er getið, er sú merking þess hins vegar ekki almennt þekkt og þar að auki ekki mjög neikvæð eða niðrandi,“ segir enn fremur í rökstuðningnum. „Þegar svo háttar að fullorðinn maður sækir um að taka upp eiginnafnið Ugluspegill er því ekki unnt að fullyrða að nafnið sé niðurlægjandi fyrir hann. Við það mat verður að hafa í huga að þegar nafn er fært á mannanafnaskrá er leyfilegt að gefa það nýfæddum börnum.“ Þá segir: Fjarlægur eða óviss möguleiki á því að nafn verði nafnbera til ama er ekki nóg til þess að hafna því. Eiginnafnið Ugluspegill verður því látið njóta vafans.“