Þátttaka bankans vekur spurningar

Egla keypti kjölfestuhlut í Búnaðarbanka Íslands í janúar 2003.
Egla keypti kjölfestuhlut í Búnaðarbanka Íslands í janúar 2003. mbl.is/Jim Smart

Umboðsmaður Alþingis segir þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers í kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum árið 2003, sem og önnur nýleg mál er varða svonefnd aflandsfélög og fjallað er meðal annars um í Panamaskjölunum, vekja áleitnar spurningar.

Spurningarnar lúti að möguleikum opinberra aðila, sem fjalla um ráðstöfun á opinberum eignum, til þess að ganga úr skugga um hvaða aðilar standi í raun að baki þeim sem lýsa áhuga sínum á að eignast slíkar eignir eða fjármagna kaupin.

Eins og mbl.is greindi frá í morgun hafa Tryggva Gunnarssyni, umboðsmanni Alþingis, borist nýjar upplýsingar um hvernig leiða megi í ljós hver hafi í raun verið þátttaka þýska bankans í kaupunum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum með aðild hans að Eglu hf.

Egla keypti kjölfestuhlut, 45,8%, í Búnaðarbankanum í janúar 2003. Egla var þá sagt vera hluta­fé­lag í eigu þýska bank­ans Hauck & Auf­häuser Pri­vat­bankiers KGaA, Kers hf. og Vátrygginga­fé­lags Íslands hf. Efasemdir hafa verið uppi um hvort þýski bankinn hafi verið meðal raunverulegra kaupenda bankans sem hluti af Eglu.

Umboðsmaður telur að frekari úrvinnsla upplýsinganna sem honum hafi borist sé líkleg til að leiða fram nýjar staðreyndir um þátttöku þýska bankans í einkavæðingunni. Hann hefur komið þessum upplýsingum áleiðis til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og telur eðlilegast, ef Alþingi vill láta kanna málið frekar, að það verði gert á grundvelli laga um rannsóknarnefndir.

Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndarinnar í morgun benti Tryggvi á að á síðustu dögum hefði bæði hér á landi og erlendis verið mikil umræða um hlut félaga sem skráð væru í löndum sem veita kost á því að leynd hvíli yfir skráningu þeirra, fjárhagslegum atriðum og starfsemi þeirra, bæði í viðskiptum og vörslu fjármuna.

Gera verði meiri kröfur

Hann sagði að með tilliti til aukinna krafna um gegnsæi og jafnræði í stjórnsýslunni, sem og við ráðstöfun opinberra eigna, kunni að vera ástæða til að huga að því hvort gera verði meiri kröfur um að fyrir liggi upplýsingar um aðild félaga af umræddu tagi að kaupum á opinberum eignum. 

Ganga verði úr skugga um hvaða aðilar stæðu í raun að baki þeim sem lýsa áhuga sínum á að eignast slíkar eignir. 

Frétt mbl.is: Nýjar upplýsingar um þátt bankans

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka