Umboðsmanni Alþingis hafa borist nýjar upplýsingar um hvernig leiða megi í ljós hver hafi í raun verið þátttaka þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum á hluta ríkisins í Búnaðarbanka Íslands á árinu 2003 með aðild hans að Eglu hf.
Upplýsingarnar kunna að hafa þýðingu um réttmæti þeirra upplýsinga sem stjórnvöld byggðu á við sölu hlutarins, þar á meðal við val á viðsemjanda um kaupin. Þá kann einnig að skipta máli hvort þau skilyrði sem fram komu í kaupsamningi um viðskiptin 2003 hafi að öllu leyti verið uppfyllt sem og þegar tekin var afstaða til beiðna kaupandans á síðari stigum um breytingar á samningsbundnum skyldum aðila.
Umboðsmaður Alþingis, Tryggvi Gunnarsson, hefur sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis bréf þar sem hann gerir grein fyrir því að honum hafi borist þessar upplýsingar en hann kynnti efni bréfsins á fundi nefndarinnar í morgun.
Umræddum upplýsingum var komið til umboðsmanns undir þeim formerkjum að hann gætti trúnaðar um uppruna þeirra. Um er að ræða nýjar upplýsingar um aðild þýska bankans að kaupunum sem ekki lágu áður fyrir.
Umboðsmaður sagði að heimildarmaður hans hafi lýst því hvernig hægt væri að komast að þessum upplýsingum.
Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskiptaráðherra, og Geir H. Haarde, þá fjármálaráðherra, undirrituðu í janúar 2003 kaupsamning fyrir hönd ríkisins við S-hópinn svonefnda, þ.e. Eglu hf., Vátryggingafélag Íslands hf., Samvinnulífeyrissjóðinn og Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar, um kaup hans á 45,8% hlutabréfa í Búnaðarbanka Íslands hf. Egla var þá sagt vera hlutafélag í eigu þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA, Kers hf. og Vátryggingafélags Íslands hf.
Umboðsmaður sagði ljóst að lengi hefðu verið uppi óskir um að aðild bankans að kaupunum yrði skýrð nánar. Tilefnið væru efasemdir um að þáttur bankans hefði í raun verið með þeim hætti sem kynnt var af hálfu kaupenda eignarhlutans.
Umboðsmaður sagði að í störfum hans í rannsóknarnefnd Alþingis árið 2009, um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna, hafi verið reynt að fá fram gleggri upplýsingar en áður hefði tekist um tilefni og aðild þýska bankans að kaupum á hlutnum. Eftir þá vinnu taldi hann að í reynd yrði ekki bætt við upplýsingum sem hefðu þýðingu um hvernig staðið væri að einkavæðingu bankanna nema annars vegar kæmu til nýjar upplýsingar af hálfu þeirra sem unnu að sölu bankanna til viðbótar því sem þeir hafa áður greint frá og hins vegar að upplýst yrði hver hafi í raun verið þátttaka bankans í kaupunum.
Taldi hann því ástæðu til að kanna þessar upplýsingar nánar, með tilliti til þess hvort á grundvelli þeirra væru líkur á að leiða mætti fram nýjar staðreyndir um hver þátttaka bankans hefði verið. Niðurstaða hans var sú að frekari úrvinnsla þessara upplýsinga og tilteknar athuganir og gagnaöflun væri líkleg til þess.
„Markmið upplýsingaröflunar af þessu tilefni væri fyrst og fremst að draga saman og búa til birtingar samandregnar upplýsingar um hver voru í raun atvik og aðkoma einstakra aðila að þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupunum, og þá með tilliti til þess að bera megi það saman við þær upplýsingar sem kaupendurnir veittu íslenska ríkinu sem seljanda. Þar skiptir m.a. máli að geta aflað þeirra gagna sem kunna að vera tiltæk um tilflutning fjármuna í tengslum við kaupin,“ segir í bréfi umboðsmanns.
Umboðsmaður sagðist jafnframt telja eðlilegast, ef Alþingi telur rétt að freista þess að fá fram og birta nýjar upplýsingar um þátttöku bankans, að unnið verði að því verkefni á grundvelli laga nr. 68/2011 um rannsóknarnefndir. Þá kunni jafnframt að vera tilefni til þess að bera nýjar upplýsingar, sem kunna að koma fram, saman við þær upplýsingar sem stjórnvöldum voru látnar í té á sínum tíma og þau skilyrði sem sett voru af hálfu ríkisins við kaupin.
Hann tók þó fram að í þeim upplýsingum sem hann hefði kynnt sér kæmi ekkert fram sem gæfi ástæðu til að ætla að þeir sem af hálfu ríkisins tóku ákvörðun um og unnu að sölu á hlutnum hefðu haft vitneskju um þau atriði sem koma fram í upplýsingunum sem hann hefur undir höndum.
Hann nefndi auk þess að sitt mat væri að ljúka mætti vinnu við rannsókn og skýrslugerð um þennan þátt, þ.e. aðild bankans, á tiltölulega stuttum tíma, miðað við þær upplýsingar sem hann hefði átt kost á að kynna sér. Sérstaklega eigi þetta við ef kostur væri á því að nýta þekkingu og reynslu þeirra sem þegar hefðu unnið að athugunum á þessum þætti í einkavæðingu bankanna áður.
Hann tók það fram við nefndarmenn að hann væri reiðubúinn til að aðstoða við gerð áætlunar um verkefnið og þann kostnað sem ætla mætti að fylgdi því.
Frétt mbl.is: Þátttaka bankans vekur spurningar