Mannanafnanefnd hefur samþykkt kvenkynsnöfnin Eiríkssína, Kikka, Elea, Karma og Liljan ásamt karlkynsnöfnunum Gaddi og Ári.
Nefndin hafnaði kvenkynsnöfnunum Cleopatra, Omid og Olgalilja. Þá var karlkynsnafninu Zar hafnað.
Í úrskurði nefndarinnar um nafnið Olgalilja segir að nafnið fari gegn hefðbundnum nafnmyndunarreglum í íslensku. Fyrri liður þess er nafnið Olga, í aukaföllum Olgu. Nafnið Olgalilja (í eignarfalli Olgulilju) brjóti í bága við íslenskt málkerfi þar sem nefnifallsmyndir veikra kvenkynsorða (s.s.lilja, gata) myndi ekki fyrri lið í samsettum orðum; en þar er notað eignarfall (s.s. liljusveigur, götuljós).
Þá geti ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls að rita tvö sjálfstæð eiginnöfn á borð við Olga og Lilja sem eitt orð.