Verið er að skipta um undirlag og gúmmíkurl á gervigrasvelli Fylkismanna í Árbænum og stutt er síðan hið sama var gert hjá Víkingum. Framkvæmdir standa einnig yfir á gervigrasvelli KR-inga en þar er allt tilbúið undir lagningu nýs grass. Allir þessir vellir verða því lausir við hið umdeilda dekkjakurl á næstunni.
Reykjavíkurborg stendur fyrir framkvæmdunum og nemur kostnaðurinn um 180 milljónum króna. Áætluð verklok hjá Fylkismönnum eru 12. ágúst og hjá KR-ingum eru þau áætluð 20. ágúst.
Frétt mbl.is: Skipt um gúmmí fyrir 100 milljónir
Að sögn Haraldar V. Haraldssonar, framkvæmdastjóra Víkings, stóð upphaflega til að skipta um gras og gúmmíkurl eingöngu hjá Víkingum í sumar en síðan var hinum tveimur félögunum bætt við.
„Það er mikil ánægja með þetta og þetta kemur mjög vel út,“ segir Haraldur.
Mikil umræða hefur skapast um notkun dekkjakurls vegna skaðlegra efna í því. Ekki hefur þó tekist að sýna fram á orsakasamband á milli notkunar dekkjakurls og heilsubrests. Rannsakendur hafa ekki útilokað að svo geti verið.
Ómar Einarsson, sviðsstjóri ÍTR, segir að ráðist verði í framkvæmdir á gervigrasvöllum þriggja liða á næsta ári; Fram, ÍR og Leiknis.
„Á næsta ári verður búið að endurnýja alla stóru vellina,“ segir Ómar og bætir við að framkvæmdirnar til þessa hafi gengið vel. „Mér heyrist að það sé góður gangur á þessu og við höfum verið ótrúlega heppin með veður.“
Gervigrasið sem um ræðir kemur frá Hollandi og hafa tveir þarlendir starfsmenn aðstoðað við lagningu þess.
Gúmmíkurlið er þýskt og af tegundinni Virgin. Var það sérstaklega framleitt fyrir íþróttavelli.
Árni Jónsson, framkvæmdastjóri Fylkis, segir að mikil ánægja sé hjá félaginu með gervigrasið og nýja kurlið. „Það er vitað nákvæmlega hvaða innhaldsefni eru í þessu og það er ekkert dekkjakurl.“
Árni bætir við að meistaraflokkar félagsins hafi ekkert æft á gervigrasvelli í vetur vegna þess í hversu slæmu ásigkomulagi hann var. „Núna mun þetta breytast og þetta skiptir miklu máli fyrir meistaraflokkana,“ segir hann.
„Þetta átti að gerast á næsta ári, þannig að það er mikil ánægja í öllu félaginu. Það bíða allir spenntir eftir því að geta byrjað.“