Tugmilljarða meðgjöf með bönkunum

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar og Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar.
Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar og Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkissjóður tók á sig 296 milljarða króna áhættu við endurreisn bankanna eftir hrunið 2008. Með því að fara samningaleið við kröfuhafa og taka fram fyrir hendurnar á Fjármálaeftirlitinu í viðræðum við kröfuhafa árin 2009 og 2010 glopraði ríkið miklum ávinningi og afhenti hluti í Arion banka og Íslandsbanka kröfuhöfum á silfurfati ásamt því að afsala sér ávinningi ríkisins af ábyrgð sinni frá því að bankarnir voru teknir yfir í hruninu. Þetta kemur fram í skýrslu meirihluta fjárlaganefndar Alþingis sem kynnt var í dag.

Segir þar að samningagerðin hafi alfarið gengið út á að friðþægja kröfuhafa bankanna en ábyrgðinni verið varpað yfir á íslenska skattgreiðendur. Er niðurstaða skýrslunnar að þegar samið hafi verið um að kröfuhafar eignuðust stóra hluti í bönkunum hafi ríkissjóður tekið á sig alla fjárhagslega áhættu en aðeins eignast einn bankann, Landsbankann. Kröfuhafarnir hafi á árunum 2009 til 2012 hagnast um 132,4 milljarða á áhættulausri fjárfestingu sinni í Íslandsbanka og Arion banka.

Milljarða meðgjöf 

Bent er á í skýrslunni að Arion og Íslandsbanki hafi verið afhentir kröfuhöfum án þess að reikna upp eigið fé bankanna og með því hafi kröfuhafar fengið að gjöf 44 milljarða króna. Einnig hafi verið látið hjá líða að reikna upp áfallna vexti á ríkisskuldabréfum sem bankarnir höfðu fengið til fjármögnunar og ríkið þar með orðið fyrir milljarðatapi.

Skýrslan var kynnt í dag.
Skýrslan var kynnt í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arion banki

Í skýrslunni segir að ríkissjóður hafi verið settur í áhættu fyrir 117 milljarða króna þegar Arion banki hafi tekið til starfa. Þar af voru 9,9 milljarðar í formi hlutafjár, 32,4 milljarðar í formi víkjandi láns sem hægt var að breyta í hlutafé og 75 milljarðar í formi lausafjárfyrirgreiðslu. Þá hafi ríkið einnig lofað skaðleysi á yfirtöku á Drómaskuldabréfi sem jafngilti því að tap vegna yfirfærslu eigna SPRON myndi lenda á ríkissjóði, en hagnaðurinn færi til Arion banka.

Ríkissjóður fékk 13% hlutdeild í Arion banka á móti 87% hlut kröfuhafa. Segir í skýrslunni að hlutafjárframlag Kaupþings hafi numið 66 milljörðum, en að það hafi verið í formi mats á yfirfærðum eignum sem FME og Deloitte hafi áður metið á núllvirði. Þannig hafi Arion afhent Kaupþingi þær á núll krónur en þær svo verið notaðar sem stofnfjárframlag upp á 28,8 milljarða. Þá hafi 22,8 milljarðar komið í formi eigna sem Seðlabankinn hafði leyst undan veðum og afhent Kaupþingi sem hafi lagt þær inn í Arion. Innborgun í reiðufé hafi numið 14,4 milljörðum, en slíkt komi ekki fram í fjárhreyfingum í sjóðstreymi bankans og hafi því líklega tengst samningum við Seðlabankann.

Íslandsbanki

Í tilfelli Íslandsbanka segir í skýrslunni að ríkissjóður hafi tekið á sig 57,3 milljarða áhættustöðu. 7,3 milljarðar hafi verið í formi hlutafjár, 25 milljarðar í formi víkjandi láns sem hægt var að breyta í hlutafé og 25 milljarðar í formi lausafjárfyrirgreiðslu. Þá hafi verið lofað skaðleysi vegna yfirtöku bankans á Straumi.

Ríkið fékk 5% hlut í Íslandsbanka en kröfuhafar 95%. Fyrir þennan 95% hlut fékk ríkið endurgreidda 58,7 milljarða, en það hafði áður lagt 65 milljarða stofnframlag í Íslandsbanka.

Segir í skýrslunni að áhætta ríkisins hafi allt í allt verið 57,3 milljarðar í þessu tilfelli og mögulegur ávinningur 5% af hagnaði. Framlag kröfuhafa hafi verið 52 milljarðar og hafi þeir átt möguleika á 95% af hagnaði bankans. Segir í skýrslunni að þetta sé eitt skýrasta dæmið um það hvernig hagsmunir kröfuhafa hafi verið teknir fram yfir hagsmuni skattgreiðenda.

Í skýrslunni segir að íslenska ríkið hafi tekið á sig …
Í skýrslunni segir að íslenska ríkið hafi tekið á sig 296 milljarða áhættu vegna endurreisnar bankanna með samningum við kröfuhafa. Sagt er að fjárfesting kröfuhafanna á sama tíma hafi verið áhættulaus. Samsett mynd/Eggert

Landsbankinn

Ríkið lagði í tilfelli Landsbankans 122 milljarða í bankann á móti 28 milljörðum kröfuhafa, en greiddi 2 milljarða fyrir kauprétt að hlut kröfuhafanna. Með þessu var tapsáhætta ríkisins 122 milljarðar. Átti ríkið að eignast 17% hlut kröfuhafanna í bankanum eftir að 92 milljarða skilyrt skuldabréf væri greitt upp.

Segir í skýrslunni að miðað við þá verðlagningu, þ.e. að 17% hlutur væri verðmetinn á 92 milljarða, væri verðmat Landsbankans 541 milljarður sem væri langt umfram raunvirði. „Ekki fæst betur séð en að þessi flétta hafi verið gerð til þess eins að færa Icesave-skuldbindingar yfir á skuldara nýja Landsbankans,“ segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert