Titanic-líkan Brynjars brotnaði

Brynjar Karl Birgisson við meistaraverk sitt.
Brynjar Karl Birgisson við meistaraverk sitt. mbl.is/Árni Sæberg

Brynjar Karl Birgisson segir að framhliðin á sex og hálfs metra líkani hans af skipinu Titanic úr legókubbum hafi brotnað.

Verið var að flytja skipið á Titanic-safnið í Branson í Bandaríkjunum þegar það brotnaði illilega.

„Í dálítinn tíma hélt ég að draumaferðalagið mitt væri búið að vera. Þegar ég horfði aftur á ljósmyndirnar sá ég að skipið hafði eyðilagst á sama stað og þar sem upphaflega skipið rakst á ísjakann. Kannski átti þetta allan tímann að gerast,“ skrifar Brynjar Karl á Facebook.

Hann kveðst hafa fengið boð um að sýna líkanið á sýningunni Floating Bricks í Hamborg í Þýskalandi. Þegar hann sagði forsvarsmönnum sýningarinnar frá því sem kom fyrir líkanið fékk hann engu að síður boð um að koma. Óskað var eftir því að hann myndi í staðinn endurbyggja líkanið fyrir framan sýningargesti.

Núna er Brynjar Karl á leiðinni til Hamborgar þar sem hann ætlar að púsla líkaninu saman á nýjan leik. „Það sem tók mig þrjá mánuði að smíða þarf ég núna að smíða aðeins fimm dögum!,“ skrifar hann.

Að því loknu er stefnt á að líkanið verði flutt yfir Atlantshafið á bandaríska Titanic-safnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert