Óvíst hvort upplýst verði um eigendur

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins,
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, mbl.is/Styrmir Kári

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir að það sé lagaskylda að upplýsa um eigendur banka. Það er gert á vefsíðu bankans sem á í hlut en ákvæði um þetta voru sett inn í lög um fjármálafyrirtæki fyrir fjórum árum.

Ef sjóðirnir sem keyptu í Arion banka eru í mjög dreifðri eign, eða undir 10% mörkum, er aftur á móti mögulegt að ekki verði greint frá endanlegum eigendum bankans.

Í viðtali í Kastljósi greindi Unnur frá því að mörg atriði væru skoðuð til að meta hæfi eigenda banka. „Atriði eins og orðspor hans er skoðað, fjárhagsleg staða, hvort það sé eitthvað í uppbyggingu sem torveldi eftirlit eða sé líklegt til að viðkomandi fari ekki að lögum og reglum. Við spyrjum mjög djúpra spurninga um þessa hluti,“ sagði Unnur.

Hún bætti við að leitað hefði verið í smiðju Bankaeftirlits Evrópu til að meta hæfi eigendanna. Sú stofnun hefði gefið út leiðbeiningar um slíkt. Þar er gert ráð fyrir að vogunarsjóðir geti átt banka. „Þá eru viðbótarspurningar sem er gert ráð fyrir að sé spurt, m.a. um árangur og fjárfestingastefnur.“

Spurð hvort búið sé að sjá til þess að íslenskur almenningur þurfi ekki súpa seyðið af öðru bankahruni sagði Unnur að löggjöf væri í undirbúningi á Íslandi varðandi endurreisn og slit fjármálafyrirtækja. Í þeim kemur fram að ábyrgð eigendanna sé mun meiri en áður og löggjöfin miðist við að verði fall á banka lendi það ekki á innistæðueigendum eða skattborgurum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert