„Höskuldur kom á fundinn og fór yfir þá vinnu sem bankinn hefur farið í til að kynna bankann fyrir mögulegum fjárfestum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir sem situr í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.
Efnahags- og viðskiptanefnd fundaði í morgun um söluna á tæplega þriðjungshlut í Arion banka en þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa óskað eftir að upplýst verði um raunverulega kaupendur. Hefur Fjármálaeftirlitið bent á að fjármálafyrirtækjum beri að tilgreina nöfn og hlutfallslegt eignarhald allra þeirra sem eiga umfram 1% hlutafjár á heimasíðu sinni.
„Upplýsingar um fjárfestana sem eiga í vogunarsjóðnum munu koma fram á föstudaginn geri ég ráð fyrir vegna þess að Fjármálaeftirlitið frestaði komu sinni um tvo daga,“ segir Lilja. „Málið er hjá Fjármálaeftirlitinu og það er okkar hlutverk í nefndinni að veita eftirlitsaðilum og löggjafanum aðhald út af þessum spurningum sem hafa vaknað.“