Gæti orðið hvati að fleiri árásum

Brynja Huld Óskarsdóttir starfar sem hryðjuverkasérfræðingur í London.
Brynja Huld Óskarsdóttir starfar sem hryðjuverkasérfræðingur í London. Ljósmynd/Hlynur Kristjánsson

„Ein af hættunum við árásir sem eru líkar þeirri sem gerð var í London í gær er að hún gæti orðið hvati að fleiri árásum, ekki endilega í Bretlandi heldur annars staðar í Evrópu,“ segir Brynja Huld Óskarsdóttir sem starfar sem hryðjuverkasérfræðingur hjá áhættugreiningarfyrirtækinu Jane‘s Terrorism and Insurgency Centre í London. Fyrirtækið sérhæfir sig í að greina hryðjuverk og átök um allan heim.

Spurð um hvað gæti gerst í framhaldi árásarinnar við þinghúsið í London, þar sem árásarmaður ók á gangandi vegfarendur og stakk lögreglumann til bana, segir hún ekki hægt að segja til um hvað nákvæmlega muni gerast. Hins vegar sé þekkt að hryðjuverkaárásir komi oft í hrinum. „Því ein árás veitir öðrum hvatningu til að framkvæma aðrar.“

Ógnin aukist jafnt og þétt undanfarið

Brynja segir að ekki sé hægt að segja að árásin í gær hafi beinlínis verið óvænt, hryðjuverkaógnin hefur aukist jafnt og þétt undanfarið ár. Hins vegar komi þær auðvitað alltaf fólki í opna skjöldu, þær eru áfall fyrir íbúa í löndum sem fyrir þeim verða.

„Það hefur ekki verið gerð stór hryðjuverkaárás í Bretlandi síðan árið 2005,“ minnir Brynja á. Í henni féllu 52 en Al-Qaida lýsti ábyrgð á þeirri árás á hendur sér. „Síðan eru liðin tæplega tólf ár. Og þó að árásir hafi verið gerðar í Þýskalandi, Belgíu og Frakklandi síðustu ár þá vonar fólk auðvitað að slíkt myndi ekki geta gerst í Bretlandi í dag. En hættan er alltaf til staðar.“

Kærleikur á Westminsterbrúnni í dag, sólarhring eftir árásina sem þar …
Kærleikur á Westminsterbrúnni í dag, sólarhring eftir árásina sem þar var gerð. Brynja segir alltaf spurningu um hvernig eigi að bregðast við árásum sem þessari. AFP

Brynja segir að hryðjuverkaárásir geti breytt hugmyndum borgaranna um getu stjórnvalda til að vernda þá. „Þetta getur breytt upplifun fólks á því hversu öruggt það upplifir sig.“

Hún segir að persónulega muni hún ekki líta svo á að yfirvöld geti ekki almennt tryggt öryggi en hún segir að almenningur, sem lifir ekki og hrærist í þessum málaflokki líkt og hún sjálf, geti skiljanlega fundið fyrir óöryggi. „Ég les um hryðjuverk allan daginn og veit að Evrópa er þrátt fyrir allt „öruggust í heimi“.“ Bendir hún á að hundruð hryðjuverka- eða átakatengdar árásir séu gerðar  í heiminum daglega. Þær komast bara sjaldan í fréttirnar og ef svo gerist eru þær á fjarlægum slóðum, svo sem í Afganistan, Írak, Sómalíu og Sýrlandi, í fjarlægð frá okkur hér á Vesturlöndum.

Ekki eitt einfalt svar

En hryðjuverkaárásir á borð við þessa, sem eru einfaldar í undirbúningi og auðveldar í framkvæmd, hvernig er hægt að koma í veg fyrir þær?

Brynja Huld segir þetta flókna og stóra spurningu sem sérfræðingar um allan heim velti stöðugt fyrir sér. „Það er ekki til neitt eitt svar. Þetta er mjög flókið og breytist hratt.“ Hún bendir á að sá hópur fólks sem beitir hryðjuverkum sé alls ekki einsleitur. Sá sem framkvæmdi árásina í London í gær hafi til dæmis verið Breti. Hver raunveruleg tengsl hans eru við Ríki íslams, sem lýst hefur ábyrgð á árásinni á hendur sér, eigi eftir að koma í ljós. Í raun sé alls óvíst að hann tengist samtökunum formlega, Ríki íslams vilji einfaldlega láta vita hvers þau eru megnug og lýsi því yfir ábyrgð.

Lífið gengur sinn vanagang að mestu í London í dag. …
Lífið gengur sinn vanagang að mestu í London í dag. Brúðkaupsmyndataka fór til dæmis fram á Westminsterbrúnni. AFP

Brynja Huld segir að fyrirtækið sem hún vinnur hjá hafi greint árásir sem þessar sem ákveðið „trend“ í fyrra. Það ár voru gerðar tvær mannskæðar hryðjuverkaárásir með því að aka bílum inn í mannfjölda, annars vegar í Nice í Frakklandi í júlí og hins vegar á jólamarkaði í Berlín í Þýskalandi í desember. Árásirnar eru framkvæmdar með aðferð sem er skilgreind sem „máttlitlar“, (e. Low capability) en geta engu að síður valdið miklu manntjóni og ótta meðal almennings. „Þetta eru árásir sem krefjast lítils skipulags. Árásarmaðurinn þarf bara bíl eða hníf. Ýmist valda þær litlum skaða eða mjög miklum skaða eins og til dæmis í Nice og Berlín. Þó að þetta séu svokallaðar „máttlitlar árásir“ þá geta þær vissulega haft gífurleg áhrif og breytir því hvernig yfirvöld nálgast öryggismál.“

Áhrifin eftir að koma í ljós

Lífið í London gengur að mestu sinn vangagang í dag. Umferðin er þó hægari, lögreglan er sýnilegri í nágrenni þinghússins og fólk fer að öllu með gát. Brynja Huld segir hefðbundin viðbrögð að herða öryggisgæslu, að minnsta kosti tímabundið. Svo eigi eftir að koma í ljós hvort að eitthvað frekara verði gert. „Það mun fljótlega skýrast hvaða áhrif þetta hefur. Mun þetta hafa áhrif til dæmis á ferðamenn komandi sumarmánuði eða umferðinni um göturnar? Það kemur í ljós.“

Nú munu upplýsingar um hryðjuverkið í gær fara inn í stóran gagnagrunn Jane‘sTerrorismandInsurgencyCentre sem fyrirtækið nýtir við greiningar sínar. Fyrirtækið er með ákveðna mælikvarða til að meta hryðjuverkaógn og Brynja Huld á ekki von á því að árásin í gær breyti miklu um stöðu Bretlands á þeim kvarða.

Flaggað í hálfa stöng við klukkuturninn Big Ben í dag.
Flaggað í hálfa stöng við klukkuturninn Big Ben í dag. AFP

Engin viðbrögð þau einu réttu

Hefðbundin viðbrögð stjórnvalda við hryðjuverkum hafa að undanförnu oftast verið þau að hvetja borgara til að halda ró sinni og að hræðast ekki. Að halda áfram að lifa sínu lífi. Stjórnmálamenn eru gjarnir á að segja að þeir muni ekki láta hryðjuverkamenn kúga sig. Stundum hafa viðbrögðin hins vegar verið þau að svara með árásum af fullum þunga, rétt eins og Frakkar gerðu eftir hryðjuverkin í París í nóvember árið 2015.

Spurð út í þetta segir Brynja engin ein viðbrögð rétt, skilaboð um hvernig best sé að bregðast við séu auk þess síbreytileg. „Þetta er flókið. Ég skipti persónulega um skoðun nánast á hverjum degi. Á að svara af hörku eða nálgast þetta með mjúkum hætti? Ekkert eitt svar er til, sérstaklega vegna þess að þeir sem fremja hryðjuverk eru ólíkir einstaklingar þó að ákveðin líkindi séu stundum með þeim.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert