9,99% engin tilviljun

Frá fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun.
Frá fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun. mbl.is/Hjörtur

Fjármálaeftirlitið telur að ekki hafi enn skapast þær aðstæður að kaupendur í Arion banka hafi orðið virkir eigendur í gegnum beint og óbeint eignahald. FME hafi hins vegar borist upplýsingar um að kaupendur að 30% hlut Kaupþings í bankanum hafi áhuga á því að auka hlut sinn í honum. Fyrir vikið er hafinn undirbúningur hjá FME til þess að leggja mat á hæfi þeirra til þess að verða virkir eigendur að bankanum.

Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun þar sem fulltrúar FME sátu fyrir svörum nefndarmanna um söluna í Arion banka. Fundurinn var haldinn að frumkvæði Lilju Alfreðsdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins. Jón Þór Sturluson, aðstoðarframkvæmdastjóri FME, sagði að eftirlitið hefði átt fundi með einhverjum þeirra aðila sem keypt hefðu í Arion banka vegna áhuga þeirra á að auka hlut sinn.

Spurður hvort Fjármálaeftirlitið hefði verið í samskiptum við kaupendurna, sem eru breskir og bandarískir vogunarsjóðir auk bandaríska fjárfestingabankans Goldman Sachs, áður en af þeim varð sagði FME hafa verið í enhverjum samskiptum við bæði Arion banka og Kaupþing sem og einstaka mögulega fjárfesta. Þá bæði í hópi þeirra sem síðan keyptu í bankanum og aðra.

Spurður um þá staðreynd að enginn kaupendanna keypti meira en 9,99% hlut í Arion banka sagði Jón Þór ljóst að það væri engin tilviljun. Vísaði hann til þess að við 10% telst kaupandi fara með virkan eignarhlut og sætir þá meira eftirliti en ella. Endurtók hann að FME hefði ástæðu til að ætla að kaupendurnir vildu eignast stærri hlut í bankanum. Fundað hafi verið með einhverjum af kaupendnunum og undirbúningur væri í gangi fyrir frekari fundahöld.

FME geti hvenær sem er skipt um skoðun

Jón Þór var einnig spurður um mat FME á kaupendum í ljósi beins og óbeins eignarhalds. Sagði hann ljóst samkvæmt lögum að eftirlitið horfði bæði til beins og óbeins eignarhluts. Upplýsti hann að kaupendur hefðu fyrir kaupin haft samband við FME til þess að leita álits á því með hvaða hætti eftirlitið myndi túlka kaupin. Á grundvelli þessara samskipta hafi kaupendur sem þegar gætu talist virkir eigendur í þessu ljósi skuldbundið sig til þess að takmarka áhrif sín um stundasakir.

Spurður hvort það væri þá mat FME að kaupendurnir væru þegar í einhverjum tilfellum komnir yfir 10% viðmiðið sagði Jón Þór að það væri mat eftirlitsins að sú væri ekki raunin að svo stöddu. Horft væri í því sambandi meðal annars til mögulegra áhrifa viðkomandi á rekstur bankans. Sú staða væri að mati þess ekki komin upp. Umrædd kaup í Arion banka fælu ekki í sér aukin áhrif á rekstur bankans að svo komnu máli þar sem kaupendur hefðu takmarkað áhrif sín.

Hins vegar lagði hann áherslu á að FME hefði gert kaupendum grein fyrir því að mat eftirlitsins byggðist á því með hvaða hætti hegðuðu sér og hvernig málum ætti eftir að vinda fram. FME gæti fyrir vikið skipt um skoðun ef ástæða teldist til þess. Spurður hvort kaupendum hefði verið tilkynnt um þetta með formlegum hætti sagði hann það hafa verið gert í gegnum bréfaskipti. FME hafi sett ákveðin tímamörk í þessum efnum og fylgdist vel með og gæti hvenær sem er skipt um skoðun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert