Fara þurfi yfir regluverkið

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það sem eftir stendur í raun, núna átta árum eftir bankahrunið og margvíslegar breytingar á lagaumhverfinu og regluverkinu, er að við sitjum engi að síður upp með þá stöðu að hér geti aðilar með vafasamt orðspor og eignarhald í skattaskjólum verið að fjárfesta í fjármálafyrirtækjum hér á landi sem eru mjög þjóðhagslega mikilvæg.“

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is í kjölfar fundar efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun þar sem fulltrúar Fjármálaeftirlitsins mættu og ræddu um sölu Kaupþings á 30% hlut í Arion banka til bandarískra og breskra vogunarsjóða auk bandaríska fjárfestingabankans Goldman Sachs.

„Stóra spurningin sem situr eftir er sú hvort skoða þurfi betur þessa umgjörð?“ segir Katrín. „Ég er ekki viss um að þetta sé það sem almenningur á Íslandi vilji sjá hér á landi. Meirihluti fólks vill vafalaust að hér sé heilbrigt fjármálakerfi og lítur ekki á að þannig sé málum háttað þegar eignarhaldið á eiganda bankans er í skattaskjóli eða hann gerst sekur um spillingu.“

Fyrir vikið hljóti að þurfa að fara yfir lagaumgjörð þessara mála á nýjan leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert