Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis, segir að fléttan sem var notuð í aðdraganda sölunnar á 45,8% eignarhaldi ríkisins í Búnaðarbankanum árið 2003 hafi verið stærri en nefndin bjóst við í upphafi.
„Þegar nefnd leggur í vegferð af þessu tagi, að rannsaka tiltekinn þátt í einkavæðingunni þar sem umboðið er mjög þröngt takmarkað, er alltaf sá möguleiki að slíkar nefndir grípi í tómt. Það má kannski segja að það hafi komið á óvart hversu skipulega var að málum staðið,“ sagði Kjartan Bjarni á blaðamannafundi vegna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem var gerð opinber í dag.
Spurður hver tilgangurinn hafi verið með fléttunni sagði hann að miðað við það sem kemur fram í skýrslunni hafi hann verið að leyna eignarhaldi. Í skýrslu nefndarinnar kemur ekki fram hvers vegna menn fóru þessa leið. Nefndin vildi upplýsa um sannleikann í málinu og hún telji sig hafa gert það.
Þegar Kjartan var spurður hvort svör Ólafs Ólafssonar fyrir nefndinni hafi verið í samræmi við gögnin sem nefndin hafði undir höndum sagði hann að svörin hans hafi ekki verið ítarleg. Hann bætti við að flestir sem hafi komið fyrir nefndinni hafi gert fyrirvara um minni sitt en langt sé síðan atvik málsins gerðust.
Spurður út í saknæmi þess sem gerðist segir Kjartan að það sé Alþingi að setja málið í þann farveg en ekki nefndarinnar.