Sé horft til nýjasta uppgjörs Arion banka er ljóst að 30% hlutur í bankanum var seldur á lægra verði á dögunum en sem nemur 80% af eigin fé hans. Þetta kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögu þriggja þingmanna Framsóknarflokksins þar sem kallað er eftir því að Alþingi feli fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins að nýta forkaupsrétt sem ríkið hefur samkvæmt lögum ef hlutur í Arion banka er seldur á lægra verði en 80% af eigin fé.
Rifjað er upp í greinargerð með þingsályktunartillögunni, sem lögð er fram af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Gunnari Braga Sveinssyni og Elsu Láru Arnardóttur, að sem varúðarráðstöfun hafi verið sett ákvæði í lög þess efnis að ef hlutur í Arion banka yrði seldur á lægra verði en sem næmi 80% af eigin fé bankans gæti ríkið neytt forkaupsréttar. Þá hefði ríkið ennfremur fengið heimild til þess að yfirtaka bankann ef hann yrði ekki seldur fyrir mitt ár 2018.
„Nú hefur Kaupþing ákveðið að selja stærstu eigendum sínum hátt í þriðjungs hlut í bankanum fyrir um 80% af verðmæti hlutafjár bankans samkvæmt milliuppgjöri þriðja ársfjórðungs 2016. Með hliðsjón af hagnaði bankans undanfarin ár, umtalsverðu eigin fé umfram lögbundin mörk og þeirri staðreynd að um er að ræða banka sem samansettur var úr betri eignum Kaupþings banka hlýtur verð sem er lægra en nemur eigin fé að teljast lágt.“
Ennfremur er bent á að 30% hluturinn hafi verið keyptur á lægsta mögulega verði fyrir ofan það verð sem virkjaði forkaupsrétt ríkisins miðað við milliuppgjöri þriðja ársfjórðungs 2016. Draga megi þá ályktun af því að tilgangurinn með sölunni hafi annars vegar verið sá að koma í veg fyrir að ríkið fengi eðlilega hlutdeild í raunverulegu verðmæti bankans og hins vegar að hindra að ríkið gæti leyst til sín bankann á næsta ári.
„Sé hins vegar litið til nýjasta uppgjörs Arion banka, árslokauppgjörs fyrir árið 2016, fer verð hlutarins sem um ræðir undir 80% af eigin fé. Þar sem eðlilegt hlýtur að teljast að litið sé til síðasta uppgjörs eða ársuppgjörs (ársreiknings) verður ekki annað séð en að ríkið hafi heimild til að ganga inn í kaupin og leysa til sín hlutinn. Athygli er vakin á því að vegna skuldar slitabús Arion banka við ríkið og stöðugleikaskilyrðanna þarf ríkissjóður ekki að leggja út kaupverðið.“
Flutningsmenn segja að í ljósi þessa sé lagt til að fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisvaldsins verði falið að neyta forkaupsréttar ríkisins að umræddum 30% hlut í Arion banka. Kaupendur hlutarins voru bandarískir og breskir vogunarsjóðir auk bandaríska fjárfestingabankans Goldman Sachs.