Biðja um upplýsingar um kaupendur

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis samþykkti einróma á fundi í morgun að kalla eftir öllum upplýsingum sem til eru um væntanlega kaupendur á hlut í Arion banka frá Fjármálaeftirlitinu. Óli Björn Kárason, formaður nefndarinnar, segir mikilvægt að allar upplýsingar liggi fyrir um eigendur allra fjármálafyrirtækja á landinu.

„Þetta er spurning um trúverðugleika og traust sem þarf að ríkja um þessi kerfislæga mikilvægu fyrirtæki. Það er eðlilegt að það sé upplýst um hverjir eru eigendur og hvers konar eigendur,“ sagði Óli Björn að loknum fundinum.

Fulltrúar lífeyrissjóða sem voru í viðræðum um kaup á bankanum komu einnig fyrir nefndina en Óli Björn vildi ekki gefa upp hvaða upplýsingar komu þar fram að svo stöddu. Tillaga Framsóknarmanna um að ríkið nýti sér forkaupsrétt að hlutnum var ekki rædd á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert