Geta ekki svarað um orðspor kaupendanna

Arion banki.
Arion banki. Ljósmynd/Ragnheiður Arngrímsdóttir

Fjármálaeftirlitið hefur ekki lagt mat á hæfi nýrra hluthafa í Arion banka hf. til að fara með virkan eignarhlut í bankanum í samræmi við lög um fjármálafyrirtæki. Því hafa þeir aðilar sem keyptu í Arion banka ekki látið FME í té upplýsingar um stærstu hluthafa eða eigendur.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn fjármálaráðherra, Benedikts Jóhannessonar, um kaup á 29,2% hlut í Arion banka.

Ráðherra spurði m.a. hvort orðspor einhvers eða einhverra kaupenda væri líklegt til að skaða orðspor Arion banka en því gat FME ekki svarað.

Í svarinu kemur fram að það sé mat FME að enginn hinna nýju hluthafa fari nú þegar með virkan eignarhlut í bankanum í skilningi laga um fjármálafyrirtæki en þrír aðilar; TCA New Si­decar III s.a.r.l., Trinity Investments DAC og Sculptor Investments s.a.r.l., hafi upplýst FME um að þeir kunni að auka við hlut sinn.

„Hafa þeir upplýst Fjármálaeftirlitið um að þeir séu að undirbúa tilkynningu og upplýsingagjöf til stofnunarinnar svo unnt sé að leggja mat á hæfi þeirra til að fara með virkan eignarhlut í bankanum,“ segir í svarinu.

Innan FME sé hafinn undirbúningur að slíku mati.

Í svarinu segir einnig að allir nýju hluthafarnir eða aðilar þeim tengdir hafi verið á meðal kröfuhafa Kaupþings ehf. við gerð nauðasamninga félagsins og fari nú með hlut í félaginu.

Spurningar ráðherra voru eftirfarandi:

  1. Hvers eðlis eru þau fyrirtæki eða sjóðir sem keypt hafa hlut í Arion banka núna?
  2. Voru þessi fyrirtæki eða sjóðir öll kröfuhafar í þrotabú Kaupþings?
  3. Hvaða samninga hafa fyrirtækin gert um frekari kaup á hlutabréfum í Arion banka?
  4.  Var gætt að armslengdarsjónarmiðum við samninga þessara aðila við þrotabúið?
  5. Eru uppi áform um að skrá hlutabréf í Arion banka á markaði? Ef svo er, hvenær og hvar? Hafa þessi fyrirtæki sem nú hafa keypt hlutabréf í Arion banka komið að þeim undirbúningi? 
  6. Voru stofnuð sérstök fyrirtæki eða sjóðir til þess að halda utan um kaupin á hlutabréfunum í Arion banka? Ef svo er, hvaða skýringar eru á því?
  7. Hafa einhver þessara fyrirtækja eða sjóða kynnt Fjármálaeftirlitinu áform um frekari fjárfestingar í Arion banka? Ef svo er þá hver og hvenær?
  8. Hafa þessi fyrirtæki eða sjóðir haft með sér formlegt samstarf við kaupin? Ef svo er, er þá ekki ástæða til þess að skoða þau formlega sem eiganda virks eignarhlutar?
  9. Séu fyrirtækin eða sjóðirnir einnig kröfuhafar í þrotabú Kaupþings er ljóst að beint og óbeint eignarhald a.m.k. tveggja fyrirtækja er komið yfir 10%. Hefur Fjármálaeftirlitið litið til þessa við mat á fyrirtækjunum sem eigendum virkra eignarhluta?
  10. Hafa fyrirtækin eða sjóðirnir látið Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar um stærstu hluthafa eða eigendur í sjóðunum?
  11. Er orðspor einhvers eða einhverra þessara kaupenda með einhverjum hætti líklegt til þess að skaða orðspor Arion banka?

Hér má finna erindi ráðherra í heild og hér má finna svör FME.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert