Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segir kaup erlendra aðila á tæplega 30% hlut í Arion-banka í mars að mörgu leyti stærra mál en söluna á Búnaðarbanka fyrir 14 árum.
Niðurstaða rannsóknarskýrslu Alþingis, sem greint var frá í síðustu viku, var sú að blekkingum hefði verið beitt við sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbanka í janúar 2003.
Þrír þingmenn Framsóknarflokksins, Sigmundur, Gunnar Bragi Sveinsson og Elsa Lára Arnardóttir, hafa lagt fram þingsályktunartillögu þar sem kallað er eftir því að Alþingi feli fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins að nýta forkaupsrétt sem ríkið hefur samkvæmt lögum ef hlutur í Arion banka er seldur á lægra verði en 80% af eigin fé.
Frétt mbl.is: Ríkið kaupi hlutinn í Arion banka
Flutningsmenn segja að í ljósi þessa sé lagt til að fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisvaldsins verði falið að neyta forkaupsréttar ríkisins að umræddum 30% hlut í Arion banka. Kaupendur hlutarins voru bandarískir og breskir vogunarsjóðir auk bandaríska fjárfestingabankans Goldman Sachs.
„Ef maður reiknar þetta út frá uppgjörunum þá fær maður þessar tölur,“ segir Sigmundur. Kaupverð var miðað við eigið fé bankans eins og það stóð í níu mánaða uppgjöri en með því móti taldist verðið sem miðað var við jafngilda 0,81 krónu á hverja krónu eiginfjár. Í ársuppgjörinu kom í ljós að eigið fé Arion banka hafði aukist en það olli því að upphæðin sem gengið var út frá í viðræðum við erlendu vogunarsjóðina var 0,79 krónur á hverja krónu eiginfjár.
„Þetta byggir einnig á því að það væri í raun hægt að taka út úr bankanum um 70 milljarða króna af eigin fé og hann væri samt með nægt eigið fé til að uppfylla öll skilyrði um eiginfjárhlutfall. Þá viljum við meina að það sé æskilegra að ríkið yfirtaki bankann og það þá frekar en þessir aðilar nýti eigið fé í innviðauppbyggingu í landinu,“ segir Sigmundur.
Hann vonast til að þingsályktunartillagan fái að koma til umræðu á þinginu. „Það er búið að eyða miklum kröftum í að takast á um og ræða sölu Búnaðarbankans fyrir 14 árum. Hér er hins vegar um að ræða sölu sem er á margan hátt miklu stærri en það mál,“ segir Sigmundur. „Vonandi munu menn fara í gegnum þessa umræðu núna, frekar en að ætla sér að gera það eftir 10-15 ár.“
Aðspurður segir Sigmundur að hann telji núna rétta tímann til að ræða þessi mál í kjölfar áðurnefndrar skýrslu um Búnaðarbanka. Hann telur við fyrstu sýn að margt sé líkt sem um þarna sé að ræða.
„Þarna eru erlendir aðilar að kaupa án þess að það sé ljóst hvort þeir séu að kaupa fyrir sjálfa sig eða ekki. Manni finnst til að mynda ólíklegt að Goldman Sachs ætli að eiga 2,4% hlut í íslenskum banka á sínum reikningi til langs tíma,“ segir Sigmundur og bætir við að við þetta vakni ýmsar spurningar.
„Þó að ríkið eigi ekki Arion banka í heild, heldur eingöngu 13%, má segja að ríkið eigi bankann að miklu leyti óbeint vegna stöðugleikaskilyrðanna sem kváðu á um að það sem kæmi fyrir bankann rynni að mestu leyti til ríkisins. Ef menn hefðu ekki klárað sölu fyrir mitt næsta ár hefði ríkið getað yfirtekið bankann.“