Óábyrg og glannaleg ummæli?

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn

Það var óábyrgt og glannalegt af fjármála- og efnahagsráðherra að gefa út heilbrigðisvottorð á kaup erlendra aðila í Arion banka um leið og tilkynnt var um kaupin og án þess að upplýsingar væru fyrir hendi um kaupendurna.

Þetta sagði Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag þar sem hún spurði Benedikt Jóhannesson m.a. að því hvort hann sæi eftir ummælum sínum um kaupinn.

Lilja benti á að Och-Ziff Capi­tal Manage­ment Group hefði verið dæmt til að greiða 47 milljarða króna í sekt í fyrra vegna mútugreiðslna dótturfélags sjóðsins og væri komið í ruslflokk hjá matsfyrirtækinu Standard & Poor's.

Och-Ziff á 6,6% í Arion banka í gegnum félagið Sculptor Invest­ments s.a.r.l.

Lilja sagði menn telja ólíklegt að fyrirtækið gæti staðið undir skuldbindingum sínum og vildi fá að vita hvort ráðherra teldi enn jákvætt að sjóðurinn væri fjárfestir í kerfislega mikilvægum banka á Íslandi.

Benedikt sagði Íslendinga brennda gagnvart fjármálakerfinu og sagði vissulega best ef landsmenn gætu borið traust til sem flestra eigenda bankanna. Þá sagðist hann standa við þau orð sín að það væri ánægjulegt að heyra að vogunarsjóðir væru að taka stöðu með Íslandi en ekki gegn Íslandi.

Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks.
Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks. mbl.is/Eggert

Lilja sagði svör ráðherra ófullnægjandi; svo virtist sem hann hefði gleymt því að hann hefði gefið út heilbrigðisvottorð strax í kjölfar kaupanna. Sagði hún um ákveðna blekkingu að ræða þegar fjármála- og efnahagsráðherra væri strax tilbúinn að stíga fram og gefa heilbrigðisvottorð án þess að hafa nægilegar upplýsingar.

„Var þetta ekki óábyrgt? Var þetta ekki glannalegt?“ spurði þingmaðurinn ráðherra.

Benedikt sagðist standa við þau orð sín að það væri betra að sem flestir stæðu með Íslandi frekar en þeir væru á móti. Sagðist hann fagna því að þingmaðurinn mæti orð sín mikils en ummælin hefðu ekki verið ígildi heilbrigðisvottorðs.

Það væri hlutverk Fjármálaeftirlitsins að meta hæfi þeirra sem færu með virkan eignarhlut í bankanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka