„Hef verið kjöldreginn í opinberri umræðu“

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. Ljósmynd/Úr myndskeiðinu

Ólafur Ólafsson hefur birt myndband af framsögu sem hann hefur undirbúið fyrir fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í dag, þar sem salan á Búnaðarbankanum verður rædd. Ólafur er ósáttur við að hann fái aðeins 10-15 mínútur til að fara yfir sína hlið í upphafi fundarins. Myndskeiðið er hins vegar 50 mínútur.

Ólafur, sem óskaði eftir því að fá fund með nefndinni 3. apríl, segir í fréttatilkynningu sem hann hefur sent frá sér, að í samskiptum sínum við nefndina hafi hann gert ráð fyrir að fá rúman tíma til að gera nefndarmönnum og almenningi öllum ítarlega grein fyrir mikilvægum atriðum sem fjallað var um í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. 

Ólafur segir honum hafi verið tjáð seint í gær nefndin þyrfti að takmarka tíma hans við 10-15 mínútur. Ólafur virðir ákvörðun nefndarmanna og hefur sent nefndinni bréf til upplýsingar um að framsagan í heild sé birt fyrir fundinn. Þeir, sem og almenningur, hafi þá kost á að kynna sér vel þau efnisatriði sem hann hefði viljað koma betur á framfæri fyrir nefndinni. Hann segir í myndskeiðinu að það sé óhugsandi að koma sinni hlið á framfæri á 10-15 mínútum.

Í myndskeiðinu segir Ólafur m.a. að þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hafi hann ekki fengið nein gögn frá rannsóknarnefnd Alþingis sem rannsakaði aðkomu erlends banka að sölu Búnaðarbankans í ársbyrjun 2003. Hann tekur fram að það sé erfitt að muna allt af mikilli nákvæmni sem gerðist fyrir 15 árum. 

Skilur að fólk komst í uppnám

„Ég get skilið að fólk komst í uppnám eftir að skýrslan var kynnt. Enda hef ég verið kjöldreginn í opinberri umræðu. Lýsing á aðkomu minni í skýrslu rannsóknarnefndar gerir mig að aðalleikara í því sem við köllum blekkingarleikur þar sem ríkisstjórn og almenningur eru sögð fórnarlömb. Reiðin sem reis upp í kjölfarið, og margir skynjuðu, er skiljanleg í því ljósi, enda fléttast inn í þessa umfjöllun miklar tilfinningar fólks. Ég geri ekki lítið úr þessum tilfinningum og gagnrýni þær ekki, og alls ekki þau viðbrögð,“ segir Ólafur.

Hann bætir við að frásögn rannsóknarnefndar um söluna á Búnaðarbankanum sé mjög einhliða. Frásögnin sé studd gögnum sem séu valin þannig að þau hentuðu sögunni sem átti að segja.

Í lok myndbandsins segist Ólafur hafa sýnt fram á að aðkoma erlends fjármálafyrirtækis hafi ekki verið grundvallarforsenda fyrir sölu ríkisins á hlutbréfum í Búnaðarbankanum. Þýski bankinn hafi verið raunverulegur og lögformlegur eigandi í Eglu sem keypti auk annarra hlutabréf í Búnaðarbankanum.

„Pólitísk íhlutun í ferlinu hafði áhrif á atburðarásina og ákvarðanir þátttakenda.“

Hann segir að staðið hafi verið við alla samninga við ríkið og upplýst um öll atriði sem spurt hafi verið um. Ríkið hafi hvorki verið blekkt né verra sett með aðkomu þýska bankans. 

Hér má lesa erindið í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert