Ólafur Ólafsson fjárfestir, oft kenndur við Samskip, mætti á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í gær. Hann hugðist kynna upplýsingar sem hann vildi meina að vörpuðu nýju ljósi á aðkomu þýska bankans Hauck og Aufhäuser að kaupum 48,5 prósenta hlutar í Búnaðarbanka Íslands árið 2003. Nefndarmenn voru hins vegar sammála um það á fundinum í gær að gögnin sem Ólafur afhenti væru ekki ný, enda hefðu þau verið aðgengileg nefndinni og vísað væri til flestra þeirra í skýrslu nefndarinnar. Þeir skildu því ekki af hverju Ólafur óskaði eftir því að koma fyrir nefndina.
Sumum nefndarmanna var heitt í hamsi á fundinum og þjörmuðu þeir að Ólafi, en hann gaf ekki alltaf skýr svör, þrátt fyrir að spurningar væru ítrekaðar. Hann fullyrti hins vegar að hann svaraði af fullri einlægni og eftir bestu vitund. Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem sat fundinn í fjarveru Brynjars Níelssonar, flokksfélaga hans, gekk hart fram og þurfti oftar en einu sinni að biðja hann um að hafa sig hægan. Hér fyrir neðan er hægt að sjá orðaskipti þeirra og allan fundinn í heild sinni.
Ólafur var stjórnarformaður Eglu, stærsta einstaka aðila í kaupum S-hópsins svokallaða á hlutnum í bankanum, en þýski bankinn var skráður fyrir helmingshlut í Eglu.
En rannsóknarnefnd Alþingis, um söluna á Búnaðarbankanum, komst að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld, fjölmiðlar og almenningur hefðu verið blekkt í aðdraganda og kjölfar sölunnar. Enda hefði aðkoma þýska bankanas aðeins verið til málamynda. Hann hefði aldrei verið raunverulegur eigandi og hagnaðist lítið á kaupunum.