Hreiðar Már Sigurðsson telur sig geta fullyrt að hann hafi ekki heyrt minnst á félagið Dekhill Advisors Limited, fyrr en í bréfi rannsóknarnefndar Alþingis sem hann fékk í mars á þessu ári. Þar var hann spurður út í viðskipti með 45,8 prósenta hlut í Búnaðarbanka Íslands, sem S-hópurinn keypti árið 2002. Hann var aðstoðarforstjóri Kaupþings á þeim tíma. Þetta kemur fram í svari hans við fyrirspurn mbl.is, en þar vísar hann til svarbréfs síns til rannsóknarnefndarinnar. Í svarbréfinu tekur hann þó fram að hann svari eftir besta minni, enda sé um lánaviðskipti að ræða sem áttu sér stað fyrir 14 árum. Hann vill ekki tjá sig frekar um málið. Dekhill fékk helmingshlut hagnaðar af sölu bréfa í Búnaðarbankanum.
Í viðtali í Kastljósi í síðustu viku vísaði Ólafur Ólafsson fjárfestir, sem fór fyrir S-hópnum, á stjórnendur Kaupþings og þýska bankans Hauk & Aufhäuser, til að upplýsa um hver hefði fengið hinn helminginn af hagnaðinum af fléttunni í tengslum við kaupin. Ólafur var stjórnarformaður Eglu, stærsta einstaka aðila í kaupum S-hópsins á Búnaðarbankanum, en þýski bankinn átti helmingshlut í Eglu til skamms tíma.
Hlutabréfin sem þýski bankinn keypti í Búnaðarbankanum voru síðar seld með milljarða króna hagnaði sem varð eftir á bankareikningi aflandsfélagsins Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser. Hagnaðurinn var greiddur út snemma árs 2006. Samkvæmt upplýsingum rannsóknarnefndarinnar fékk aflandsfélagið Marine Choice Limited, sem var í eigu Ólafs Ólafssonar, rúmlega helming hagnaðarins. Tæpur helmingur fór hins vegar til félagsins Dekhill Advisors
Ólafur hefur þvertekið fyrir að kannast við Dekhill og sagði í viðtalinu í Kastljósi að hann hefði samið við Kaupþing um skiptingu á hagnaðnum af umræddri fléttu. Hann fékk um 4 milljarða í sinn hlut en Dekhill mun hafa fengið annað eins. Ólafur sagði stjórnendur Kaupþings verða að svara því við hverja þeir sömdu.
Kaupþing Lánaði Welling & Partners fé á þessum tíma en Hreiðar segir í bréfi sínu til rannsóknarnefndarinnar að hann hafi ekki munað eftir aðkomu bankans að lánaviðskiptunum þegar hann kom í skýrslutöku hjá nefndinni. Hann telur þó að lánið hafi að fullu verið greitt með vöxtum og þóknunum. Aðkoma Kaupþings að viðskiptunum hafi því verið að fullu lögmæt og eðlileg. Þá segist Hreiðar Már ekki hafa notið fjárhagsleg ávinnings af umræddum viðskiptum.
Það er því enn á huldu hver er eigandi Dekhill Advisors og hver fékk hinn helming hagnaðarins af sölunni.