Metfjöldi keppenda í ár

Hjólreiðakeppnin WOW Cyclothon hefst á miðvikudaginn 20. júní. Þar hjóla keppendur hringinn um landið á undir 72 tímum. Er hún með sniði boðhlaups þar sem keppendur í fjögurra eða tíu manna liðum skipta með sér að hjóla alla 1350 kílómetrana. Auk þess eru í ár fjórir einstaklingar sem ætla að hjóla alla leiðina.

Sverrir Falur Björnsson hjá WOW segir að mikill fjöldi erlendra keppenda taki þátt í ár, eða um 100-150 manns. Þá sé metfjöldi keppenda frá byrjun en alls taka þátt 1358 keppendur í 144 liðum. Reiðhjólaklúbburinn Hjólakraftur tekur þátt með flokki ungmenna eins og síðustu ár auk þess sem nokkrar björgunarsveitir hafa tekið sig saman og taka þátt en í ár er áheitasöfnun fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörg og mun allur ágóði renna til félagsins.

Blaðamaður mbl.is grennslaðist fyrir um keppnina til þess að upplýsa keppendur, aðstandendur og aðra lesendur um dagskrá, leiðina og breytingar.

Mun keppnin hefjast á þriðjudagskvöld þegar keppendur í Hjólakrafti og einstaklingsflokki leggja af stað frá Öskju klukkan 18:00. Á miðvikudagskvöld leggur A-flokkur 4-manna liða af stað klukkan 18:00 og B-flokkur 10-manna liða klukkan 19:00. Ekki er búist við að vegir á höfuðborgarsvæðinu verði lokaðir þegar keppni hefst en gera má ráð fyrir töfum á Vesturlandsvegi á milli 18:00 og 20:00 og í Hvalfirði á milli 18:30 og 23:00.

Hér má sjá leiðina en frá Reykjavík er ferðinni heitið í Hvalfjörð. Þaðan heldur ferðin áfram norður á Akureyri og austur á land í gegn um Egilsstaði í átt að Höfn og yfir suðurlandið.  

Breytingar í Hvalfirði og endamark

Litlar breytingar hafa verið gerðar á keppninni frá undanförnum árum en aðallega má geta þess að leiðinni í gegn um Hvalfjörð hefur verið skipt upp í svæði og snúast breytingarnar um að fækka skiptingum þar. Er þetta gert af öryggisástæðum en yfirleitt er styst á milli liða á þessum kafla. Fara þær nú fram á stöðum þar sem nægt pláss er fyrir bíla til að víkja svo að bæði öryggi keppenda og annarra vegfarenda sé tryggt.

Þá hefur endamarkinu einnig verið breytt og er það nú við Hvaleyravatnsveg í Hafnarfirði vegna framkvæmda á Krísuvíkurvegi. Búist er við fyrstu keppendum í endamark um klukkan 07:00 á föstudagsmorgni en á vefsíðu WOW Cyclothon er einnig að finna tímatöflur liðanna. Má þar sjá áætlaða staðsetningu liðanna á stöðum í kring um landið. 

Liðin eru með GPS staðsetningartæki sem birtir staðsetningu þeirra hverju sinni og hægt er að fylgjast með á heimasíðu keppninnar. Þar að auki verður bein útsending frá keppninni allan sólarhringinn í opinni dagskrá á stöð 0 í Sjónvarpi Símans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert