Hvorki sést áður hér á landi né annars staðar

Eldgosið í Sundhnúkagígum.
Eldgosið í Sundhnúkagígum. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Land heldur áfram að rísa við Svartsengi þrátt fyrir að enn standi yfir eldgos við Sundhnúkagígaröðina. Óvissa er uppi um í hvað stefni.

Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði, telur forsendur fyrir tveimur gosum á sama tíma enda í fyrsta skipti sem land rís undir yfirstandandi gosi. Hann segir þróunina benda til þess að kvikukerfið líti ekki alveg eins út og sérfræðingar hafi hingað til talið sig vita.

„Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona. Það er engin reynsla til þess að byggja á um það hvað þetta kann að þýða upp á framtíðina,“ segir Páll. Hann segir slíka hegðun í rótum jarðar hvorki hafa sést áður á Íslandi né í öðru landi.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, telur aftur á móti ekki miklar líkur á tveimur eldgosum í einu þrátt fyrir að merki séu um að land haldi áfram að rísa undir gosinu.

Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Í samtali við Morgunblaðið kveðst Þorvaldur þeirra skoðunar að mun meiri líkur séu á að það bæti í núverandi gos.

„Við getum ekkert útilokað hinn möguleikann en mér þykir það nú líklegt miðað við það að kvika leitar yfirleitt eftir auðveldustu leiðum til yfirborðs. Hún reynir yfirleitt ekki að finna flóknar og erfiðar leiðir.“

Segir Þorvaldur stöðuna sem nú sé uppi í raun þróun á fyrra kvikukerfi.

Almennt séð hafi neðra kvikustreymið safnast í grynnra forðabúr undir Svartsengi, sem verði til þess að land rísi á Sundhnúkareininni. Þegar efra forðabúrið sé komið að þolmörkum lyftist þakið og kvikan leitar upp í eldgosið. Þegar hólfið sé tæmt stöðvist gosið og hólfið byrji að fyllast á ný.

Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Í gosinu sem hófst 16. mars virðist aftur á móti sem svo að rásin úr dýpra forðabúrinu hafi leitað fram hjá grynnra forðabúrinu og upp.

„Samt sem áður virðist líka hafa verið opið inn í grynnra forðabúrið, þannig að þegar á leið fór hluti af kvikunni upp úr þessu dýpra forðabúri líka að streyma inn í grynnra forðabúrið,“ segir Þorvaldur.

Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

„Það sem við erum búin að vera að sjá núna er að þetta grynnra forðabúr er orðið fullt aftur og það er þess vegna sem menn hafa verið að tala um annað gos. En mér finnst miklu líklegra, ef maður horfir bara á þetta út frá pípulögnum, að ef þú ert kominn með bakþrýsting í grynnra forðabúrið þá náttúrulega leiðir það út í rásina og ef kvikan fer af stað þá leitar hún að þeirri gosrás sem þegar er virk.“

Spurður hvort hann telji þá líkur á langvarandi gosi segir Þorvaldur aðstæður vel geta skapast þar sem gos haldi áfram í vikur, mánuði, áratugi eða aldir. Fordæmi séu svo sannarlega fyrir því á Reykjanesskaganum.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Ljósmynd/Hörður Kristleifsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert