Stormur og rigning hrekkir Hjólakraft

Hópurinn lagði af stað í WOW Cyclothon frá Borgarnesi í …
Hópurinn lagði af stað í WOW Cyclothon frá Borgarnesi í dag. Ljósmynd/Bjarni Þór Traustason

Breyta þurfti rástíma krakkanna í Hjólakrafti, sem lögðu af stað hringinn í kringum landið frá Borgarnesi í WOW Cyclothon klukkan sex í kvöld, þar sem stormur og rigning gengur yfir Vesturland í kvöld og í nótt.

Með breytingunni var þess freistað að krakkarnir gætu hjólað á undan veðrinu og þau verið komin upp undir Holtavörðuheiði þegar versta veðrið gengi yfir. Þá var fyrsta legg keppninnar hjá hópnum, frá Reykjavík og í Borgarnes, kippt út vegna þessa. Krakkarnir í Hjólakrafti hófu líkt og fyrr segir keppni í dag, sólarhring á undan „fullorðins“-liðunum sem verða ræst út frá Reykjavík annað kvöld. Hópurinn stefnir að því að vera kominn á Akureyri í fyrramálið og hyggst klára hringinn á þremur sólarhringum. 

Þorvaldur Daníelsson, framkvæmdastjóri Hjólakrafts, sagði á Facebook fyrr í kvöld að þrátt fyrir rigningu væri mikil spenna og tilhlökkun í hópnum. „Við erum glöð í hjartanu og sjúklega til í þetta,“ sagði Þorvaldur en fylgjast má með ferðum hópsins á Facebook-síðu Hjólakrafts.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert