Langidalur öðlaðist nýja merkingu

Kepp­end­ur í flokki ein­stak­linga og kepp­end­ur Hjólakrafts voru ræst­ir af …
Kepp­end­ur í flokki ein­stak­linga og kepp­end­ur Hjólakrafts voru ræst­ir af stað frá Mennta­skóla Borg­ar­fjarðar í dag. Ljós­mynd/​Bjarni Þór Trausta­son

„Þetta fer mjög vel af stað,“ segir Björk Kristjánsdóttir, keppnisstjóri WOW Cyclothon, en hjólreiðakeppnin hófst í gær þegar keppendur í einstaklingskeppni lögðu af stað hringinn í kringum landið. Keppnislið Hjólakrafts lögðu einnig af stað í gær, en liðakeppni í A og B flokki hefst seinnipartinn í dag.

Keppendur eru nú komnir á Norðurland eftir að hafa hjólað í miklum mótvindi í alla nótt. Bandaríkjamaðurinn Peter Colijn er með töluverða forystu og hjólar nú framhjá Laugum í Þingeyjarsveit.

Hjólaði í 11 klukkustundir án þess að stoppa

Breyta þurfti rástíma keppenda í gær þar sem stormur og rigning gekk yfir Vesturlandið. Björk segir það þó ekki hafa haft áhrif á keppendur sem hafi staðið sig mjög vel. „Í gærkvöldi var mikill og góður meðvindur alveg fram á Blönduós en þá snerist hann í fangið á keppendum,“ segir Björk. „Það hefur verið talað um að Langidalur hafi öðlast nýja merkingu þar sem hann virtist endalaus.“

Alls taka fjórir keppendur þátt í einstaklingskeppninni, þar af þrír erlendir keppendur. Eini Íslendingurinn sem tekur þátt er Jón Óli Ólafsson, en að sögn Bjarkar hjólaði hann í ellefu klukkustundir í gærkvöldi og nótt án þess að stoppa. 

„Hann lætur engan bilbug á sér finna,“ segir Björk, og bætir við að hann hafi fengið sér að borða eftir ellefu klukkustunda legginn, og haldið svo áfram. Jón Óli hef­ur leyft áhuga­söm­um að fylgj­ast grannt með und­ir­bún­ingn­um á Face­book-síðu sinni, en hann er að taka þátt í ein­stak­lingskeppn­inni í annað sinn.

Þá segir hún krakkana í liðum Hjólakrafts hafa staðið sig mjög vel, og tæklað mótvindinn vel. Í liðum Hjólakrafts eru alls 110 keppendur í 11 liðum. Krakkarnir sem taka þátt eru á aldrinum 11-18 ára, en að sögn Bjarkar hafa allir keppendur fengið að spreyta sig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert