Andlát: Gunnar Bernhard

Gunnar Bernhard
Gunnar Bernhard

Gunnar Bernhard, forstjóri, lést í Reykjavík 2. september, 87 ára að aldri.

Gunnar fæddist á Akureyri 2. apríl 1930 og var hann sonur Guðjóns Bernharðssonar, gullsmíðameistara á Akureyri og síðar í Reykjavík, og Rögnu Gunnarsdóttur.

Gunnar fluttist með foreldrum sínum til Reykjavíkur 1945 og bjó þar upp frá því. Hann lærði gullsmíði hjá föður sínum og lauk gullsmíðameistaraprófi í Pforzheim í Þýskalandi árið 1954. Gunnar var einstakur hagleiksmaður, hagyrtur og listrænn. Gunnar og faðir hans áttu og ráku silfurverksmiðjuna Plútó í Skipholti 1945-1960 þar sem notast var við nýjustu tækni þess tíma. Þeir voru m.a. frumkvöðlar í framleiðslu á íslenskum silfurborðbúnaði. Gunnar teiknaði og hannaði borðbúnað og listmuni. Hann naut sín best í að teikna og smíða skartgripi og eftir hann liggur fjöldi gripa. Meistarastykki Gunnars í Pforzheim var stórt gullarmband sett eðalsteinum sem fékk 10 í einkunn. Gunnar var prófdómari í gullsmíði í Iðnskólanum um árabil.

Gunnar stofnaði ásamt foreldrum sínum og eiginkonu Silfurbúðina á Laugavegi 55 árið 1957 og síðar útibú á Laugavegi 13. Silfurbúðin flutti í Kringluna 1987 og var einn af frumbyggjunum þar. Hún var í rekstri innan fjölskyldunnar til 2000.

Gunnar stofnaði Hondaumboðið 1962 og hóf að flytja inn mótorhjól og skellinöðrur. Segja má að það hafi markað upphaf mótorhjólamenningar á Íslandi. Margir mótorhjólamenn urðu vinir Gunnars. Umboðið stækkaði jafnt og þétt og fékk nafnið Bernhard ehf. Synir Gunnars stýra nú fyrirtækinu, sem er til húsa í eigin húsnæði í Vatnagörðum 18-26 í Reykjavík og víðar.

Gunnar kvæntist Sigríði Guðmundsdóttur, (d. 2014) sem hann kynntist 6. nóvember 1945 kl. 14.00. Sigríður vann með Gunnari alla tíð. Þau eignuðust fimm börn og tóku einnig ungan bróður Sigríðar í fóstur. Afkomendur þeirra hjóna eru nú fimmtíu talsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert