Ráðuneytið kannast ekki við samráð

Utanrikisráðuneytið kannast ekki við að hafa átt samráð við Höllu Hrund Logadóttur orkumálastjóra um viljayfirlýsingu sem hún undirritaði við stjórnvöld í Argentínu.

Aðkoma þess hafi verið vegna vegabréfsáritunar.

Undirritun í maí í fyrra

Í maí í fyrra fór Halla Hrund í ferð til Argentínu og undirritaði þar viljayfirlýsingu sem sögð var á milli Íslands og Argentínu, um mögulegt samstarf við uppbyggingu jarðvarmavirkjana þar í landi.

Í viðtali í Spursmálum var Halla Hrund spurð út í þetta mál og var meðal annars upplýst að hún hefði ekki haft samráð við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, sem Orkustofnun heyrir undir, varðandi yfirlýsinguna.

Í gegnum annað ráðuneyti, eða hvað?

Í viðtalinu sagði Halla Hrund að samráð hennar við stjórnvöld hér á landi hefði verið í gegnum utanríkisráðuneytið og þá í gegnum sendiráð Íslands í Washington, sem einnig fer með samskipti Íslands við Argentínu.

Í svari frá utanríkisráðuneytinu sem sent var Morgunblaðinu skriflega kemur fram að orkumálastjóri hafi ekki haft samráð við ráðuneytið varðandi viljayfirlýsinguna.

Þá hafi komið í ljós að hún hafi sett sig í samband við sendiráðið í Washington, en þá í þeim tilgangi að tryggja vegabréfsáritanir til Argentínu. Þá hafi sendiráðinu borist afrit af dagskrá fyrirhugaðrar ferðar en að það hafi gerst „örfáum dögum“ fyrir ferðina.

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi svarar spurningum þáttarstjórnanda.
Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi svarar spurningum þáttarstjórnanda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Svar utanríkisráðuneytisins

Svar sendiráðsins fer hér á eftir:

„Fundur orkumálastjóra með utanríkisráðherra Argentínu á síðasta ári var ekki á vegum utanríkisráðuneytisins. Ráðuneytið vissi hvorki af fundinum né hafði aðkomu að því sem fram fór á honum. Við nánari eftirgrennslan, eftir fundinn, kom í ljós að Orkustofnun hafði verið í samskiptum við starfsfólk sendiráðs Íslands í Washington vegna vegabréfsáritana og sent þeim afrit af dagskrá ferðarinnar þegar hún var tilbúin örfáum dögum áður.“

Í viðtalinu ítrekar Halla Hrund að hún hafi upplýst sendiráðið og að ræðismaður Íslands í Argentínu hafi setið með henni fundi varðandi viljayfirlýsinguna.

Gengið eftir svörum

Orðaskiptin í viðtalinu um þetta mál má sjá í spilaranum hér að ofan en þau eru einnig tekin saman í textanum hér að neðan:

Orkustofnun heyrir ekki undir utanríkisráðuneytið.

„Það er nú fegurðin í samvinnunni að við eigum í samstarfi við utanríkisráðuneytið um mörg mál. Og mig langar aðeins að...“

Bar þér ekki að upplýsa umhverfisráðuneytið um það ef þú flýgur yfir hálfan hnöttinn og undirritar viljayfirlýsingu við stjórnvöld, við ráðherra þar í landi?

„Ég upplýsti í þessu tilfelli utanríkisráðuneytið. Það eru alls konar mál, kannski hefði ég getað unnið þetta eitthvað betur. Og ég fer yfir svona mál með mínu ráðuneyti og við finnum út úr þeim. En það er mikilvægt að átta sig á því að hérna var um að ræða almenna yfirlýsingu um að okkur langi til að skoða að vinna mögulega saman.“

Það er stefnumarkandi ákvörðun sem maður hefði haldið að stjórnmálamennirnir hefðu átt að taka?

„Það er bara það sem maður horfir á þegar maður er að byggja upp tengsl og veistu Stefán...“

Þú fékkst tiltal frá ráðuneytisstjóra vegna þessa máls, við höfum heimildir fyrir því. Þeir voru ekki sáttir við þetta.

„Veistu það, ég á svo ótrúlega gott samstarf við ólíka aðila.“

Cecilia Nicolini, loftslagsráðherra Argentínu og Halla Hrund Logadóttir undirrita viljayfirlýsingu …
Cecilia Nicolini, loftslagsráðherra Argentínu og Halla Hrund Logadóttir undirrita viljayfirlýsingu sem hvorki utanríkisráðuneytið né umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið voru upplýst um. Ljósmynd/Aðsend

Ráðuneytið ekki sátt

Þeir voru ekki sáttir við framgöngu embættismannsins i þessu tilliti, það segja okkar heimildir inni í ráðuneytinu.

„Nú veit ég ekki nákvæmlega um hvað þú ert að tala.“

Fékkstu ekki tiltal frá ráðuneytisstjóranum?

„En ég hef bara átt gott samstarf við ráðuneytisstjóra og aðra um fjölda...“

En fékkstu ekki tiltal frá ráðuneytisstjóranum um þetta mál?

„Ég bara hef átt samræður við ráðuneytisstjóra ráðuneytisins og fjölda aðra...“

Fékkstu tiltal vegna þessa tiltekna máls?

„Ég fór yfir þetta mál og mörg önnur mál, fer ég reglulega yfir með ráðuneytisstjóra. Enda er mjög mikilvægt að embættismenn séu að vinna með ráðuneytisstjórum, með öðrum sem koma að þessum málum. En leyfðu mér að segja þér af hverju það er mikilvægt að tryggja samvinnu milli ólíkra ríkja. Hvað er Argentína“

Við þekkjum það, þeir eru til dæmis mjög öflugir í málefnum Suðurpólsins en það kemur bara málinu ekki við, síst af öllu við þegar við eigum við orkuskort að etja og það er þess vegna sem ég spyr út í áherslurnar.

Viðtalið við Höllu Hrund má sjá í heild sinni hér:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert