Eins og dómurinn hafi verið þurrkaður út

Lögreglumaðurinn, sem lauk afplánun 2005, er mágur Önnu Signýjar. Haustið …
Lögreglumaðurinn, sem lauk afplánun 2005, er mágur Önnu Signýjar. Haustið 2003 var hann dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar og greiðslu miskabóta fyrir að brjóta kynferðislega gegn henni og tveimur öðrum stúlkum. mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Anna Signý Guðbjörnsdóttir, eitt fórnarlamba lögreglumanns sem fékk uppreist æru eftir að hafa sætt 18 mánaða fangelsisdóm fyrir kynferðisbrot, segist ekki hafa trúað því að hann hefði fengið uppreist æru er hún fyrst frétti það. „Mér líður eins og það sé búið að þurrka dóminn hans út. Ég þurfti að lesa fréttina þrisvar áður en ég trúði þessu,“ sagði Anna Signý í ítarlegu viðtali við RÚV.

Lögreglumaðurinn, sem lauk afplánun 2005, er mágur Önnu Signýjar. Haustið 2003 var hann dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar og greiðslu miskabóta fyrir að brjóta kynferðislega gegn henni og tveimur öðrum stúlkum, sem einnig voru tengdar honum fjölskylduböndum.

Hann sótti um uppreist æru sumarið 2009 og umsókn hans fylgdu vottorð frá sjö mönnum, þótt þess sé aðeins krafist að tveggja. Þrjú bréfanna voru rituð skömmu áður en hann sótti um uppreist æru, tvö eru ódagsett og tvö voru rituð áður en dómur féll í málinu og voru ekki skrifuð í tengslum við umsókn um uppreist æru. Meðmælendur lýsa manninum sem nákvæmum og samviskusömum, góðum föður, vinnusömum og kátum.

Eins og að staðfesta að hann hafi ekki gert neitt af sér

Maðurinn heitir Hallur Gunnar Erlingsson Reyndal og í frétt RÚV er auk Önnu Signýjar rætt við annan brotaþola hans og tilgreint að sú þriðja, sem býr erlendis styðji umfjöllun um málið og að nafn mannsins sé birt. 

Anna Signý segir að með því að veita honum uppreist æru sé verið að staðfesta þá fullyrðingu hans að hann hafi ekki gert neitt af sér.

„Ég las fyrirsögnina, las hana aftur og aftur, að fyrrverandi lögreglumaður hefði fengið uppreist æru. Ég trúði þessu varla og þurfti að lesa fréttina örugglega þrisvar áður en ég trúði þessu og brotnaði bara niður. Ég var í vinnunni og ég gat bara ekki hugsað. Þetta var áfall og það að hann hafi verið með uppreist æru síðastliðin sjö ár og ég ekki haft hugmynd um það, það fannst mér ótrúlegt,“ segir Anna Signý. 

Brotin gegn Önnu Signýju stóðu yfir frá því hún var 11 ára þar til hún var 16 ára. Var maðurinn sakfelldur fyrir að hafa á því tímabili margsinnis káfað á henni utanklæða, ítrekað reynt að stinga tungu sinni í munn hennar og fyrir að hafa einu sinni strokið kynfæri hennar og brjóst innanklæða.

Verð að vernda sjálfa mig og mín börn

Anna Signý segir manninn aldrei hafa viðurkennt brotin gegn sér og telur mögulega ekki átta sig á því að hann hafi gert eitthvað rangt. 

Hún sleit samskiptum við manninn, hálfsystur sína og fjölskyldu þeirra 2014.

„Ég ákvað bara að ég yrði að vernda sjálfa mig og mín eigin börn. Þá sendi hann mér tölvupóst og þar ritar hann að ef hann hafi gert eitthvað biðjist hann afsökunar og segir að það sé almennur misskilningur að með því að fyrirgefa eitthvað sé maður að samþykkja það sem hefur gerst. Svo biðst hann afsökunar á að trufla mitt tilfinningalíf og eitthvað svona. Þetta var ótrúlega skrítið og þetta: Ef ég gerði eitthvað þá biðst ég afsökunar. Hann er dæmdur barnaníðingur. Það fer ekkert á milli mála að það er ekkert ef. Hann gerði þetta og þetta er ótrúlega erfitt af því sem barn, að lenda í þessu, þá trúir maður þessu ekki og fer að efast um sjálfan sig og þegar hann segir svona, ef, þetta er bara valdið sem hann er að sýna fram á. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert