Ekkert sem bendir til lögbrots

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guardian hefur ekki séð nein gögn sem benda til þess að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hafi brotið lög með sölu á bréfum sínum í Sjóði 9. Í frétt Guardian kemur fram að nafn Bjarna hafi einnig komið fyrir í Panamaskjölunum á sínum tíma. Bjarni seldi all­ar eign­ir sín­ar í Sjóði 9 hjá Glitni dag­ana fyr­ir banka­hrunið, eft­ir að hafa meðal ann­ars setið fund sem þingmaður um al­var­lega stöðu bank­ans.

Í nýju tölublaði Stundarinnar er fjallað með ítarlegum hætti um viðskipti Bjarna Benediktssonar, föður hans og föðurbróður, dagana fyrir hrun bankakerfisins. Fram kemur að Bjarni seldi fyrir rúmlega 50 milljónir króna í Sjóði 9 hjá Glitni banka á tímabilinu 2. til 6. október árið 2008. Umfjöllunin er unnin í samstarfi blaðamanna á Stundinni, Reykjavik Media og Guardian.

Einar Sveinsson var um tíma stjórnarformaður Glitnis.
Einar Sveinsson var um tíma stjórnarformaður Glitnis.

Í miðlunum er einnig fjallað um fjölskyldu Bjarna en Einar Sveinsson, fjárfestir og föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, seldi eignir í Sjóði sama dag og neyðarlögin voru sett þann 6. október 2008. Einar hellti sér yfir starfsmann Glitnis eftir að hann fékk veðkall frá bankanum í aðdraganda hrunsins. Eignarhaldsfélag Einars og hann sjálfur vörðu sig gegn 176 milljóna tapi með viðskiptunum. Félag Einars fékk niðurfelldar skuldir eftir hrun, segir í frétt Stundarinnar í dag.

Í frétt Guardian kemur fram að afhjúpun á sölu Bjarna á bréfunum núna geti komið sér illa fyrir hann rétt fyrir alþingiskosningar. Til þeirra hafi verið boðað vegna máls sem tengist sambandi föður forsætisráðherra og dæmds barnaníðings. [Þar er vísað til þess að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna, skrifaði upp á uppreist æru manns sem beitti stjúpdóttur sína ítrekuðu kynferðislegu ofbeldi árum saman.]

Guardian segir í frétt sinni að gögnin, sem sýna sölu Bjarna á bréfunum, bendi til þess að hann hafi haft nánari tengsl við Glitni en almenningur og það veki upp spurningar um mögulega hagsmunaárekstra hans sem þingmanns á þessum tíma og eins af mikilmetnustu viðskiptavinum bankans.

Skjölin, sem Guardian hefur undir höndum líkt og blaðamenn Stundarinnar og Reykjavik Media, staðfesta einnig að aðrir í fjölskyldu forsætisráðherra, sem er ein auðugasta og valdamesta fjölskyldan á Íslandi samkvæmt frétt Guardian, seldu hlut sinn í Sjóði 9 á þeim tíma sem ríkið þjóðnýtti bankann.

Benedikt Sveinsson.
Benedikt Sveinsson.

Átti 165 milljónir í Sjóði 9 í mars 2008

Spurður um hvort hann hafi sjálfur selt eignir sínar í sjóðnum skömmu fyrir hrun bankans sagði Bjarni í viðtali í fyrra að hann hafi um tíma átt einhverjar eignir á ákveðnum tímapunkti en ekkert sem skipti máli. Gögnin sýna að hann átti 165 milljónir króna í sjóðnum í mars 2008.

Guardian segir í fréttinni að gögnin sýni enn frekar fram á tengsl, oft ógagnsæ, milli lítillar en um leið valdamikillar forréttindastéttar í íslensku viðskiptalífi og stjórnmálum.

Gögnin sem Guardian hefur undir höndum sýna að Bjarni tók 30 milljónir króna út úr Sjóði 9 þann 2. október 2008, fjórum dögum áður en Fjármálaeftirlitið tók yfir rekstur bankans. Jafnframt óskaði Bjarni eftir því að 21 milljón króna, sem hann átti eftir í Sjóði 9, yrði seld 6. október.

Skjáskot af forsíðu Guardian

Í viðtali við Guardian segir Bjarni að hann hafi selt meginhluta, en ekki allan hlut sinn í sjóðnum, en upplýsti ekki um fjárhæðir. Hann segir að gögn tengd hruninu hafi verið ítrekað rannsökuð en hann aldrei talinn brotlegur við lög.

„Markaðir og traust féllu hratt eftir fall Lehman Brothers um miðja september,“ hefur Guardian eftir Bjarna.

mbl.is/Friðrik Tryggvason

Kom ekki að gerð neyðarlaganna

„Allir skynsamir fjárfestar hefðu íhugað að selja á þess­um tíma,“ segir Bjarni í viðtalinu. Hann ítrekar að hann hafi ekki haft vitneskju né hafi hann tekið þátt í undirbúningi setningar neyðarlaganna en þau hafi ekki verið rædd í þeirri nefnd sem hann sat í. 

Samkvæmt Guardian voru eignir föðurbróður Bjarna, Einars Sveinssonar, sem metnar voru á einn milljarð króna, seldar 6. október og Guardian segir gögnin benda til þess að Bjarni hafi verið í símasambandi við yfirmenn Glitnis þann dag.

Klukkan 14:15, nokkrum klukkustundum áður en neyðarlögin voru lögð fram á Alþingi 6. október 2008, sendi Einar Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs Glitnis,  tölvupóst til  aðstoðarmanns Lárusar Welding, bankastjóra Glitnis, þar sem segir: „Bjarni ben segir að … fme séu á skrilljón að vinna í þessu núna … einhver að tala við Jónas." En Jónas var forstjóri FME á þessum tíma.

Bjarni segir í samtali við Guardian að það geti verið að hann hafi hringt í Einar Örn þennan dag en hann reki ekki minni til samtalsins. „Ég bjó ekki yfir neinum trúnaðarupplýsingum á þessum tíma,“ segir Bjarni í viðtalinu við Guardian.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð braut heldur ekki lög

Í grein Guardian er farið yfir fjölskyldumál Bjarna  Engeyjarfjölskylduna  og hvernig hún hefur verið áberandi í íslensku þjóðlífi áratugum saman. Farið er yfir eignir bræðranna Benedikts og Einars í bönkum og öðrum fjármálastofnunum, orku-, flutninga-, sjávarútvegs- og fleiri fyrirtækjum. 

Jafnframt eru Panamaskjölin rifjuð upp og að nafn Bjarna hafi komið fram í skjölunum sem var lekið frá Mossack Fonseca-lögmannsstofunni í Panama í tengslum við félagið Falson & Co. á Seychelles-eyjum en Bjarni átti þriðjung í því félagi. Bjarni hafði ekki gert grein fyrir eignarhlut sínum þar í gögnum til þingsins. Sagði hann að hann hafi haldið að eignin hafi verið skráð í Lúxemborg.

Eins er fjallað um Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, sem hafi hrökklast úr embætti vegna Panamaskjalanna. Þar, líkt og í máli Bjarna nú, hafi ekkert komið fram sem bendir til þess að Sigmundur Davíð hafi framið lögbrot, ekkert frekar en Bjarni nú.

Grein Guardian í heild

 Umfjöllun rannsóknarnefndar Alþingis um Sjóð 9

Panamaskjölunum var lekið frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca.
Panamaskjölunum var lekið frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert