Nýr sendiherra Svía á Íslandi hefur valdið nokkru fjaðrafoki eftir að hann varaði við því í viðtali við sænskt blað um helgina að lýðræði væri smátt og smátt að liðast í sundur í Svíþjóð og tækniveldi eða ofríki að taka völdin. Hann segir að þetta sé ekki rétt haft eftir sér og hann telji alls ekki að Svíþjóð verði einræðisríki.
Håkan Juholt er fyrrverandi formaður sænska Jafnaðarmannaflokksins en hann tók við stöðu sendiherra Svíþjóðar á Íslandi í september.
Juholt segir í samtali við mbl.is að hann og blaðamaðurinn hafi rætt um Alþingi Íslands og hann hafi lýst því hversu stoltur hann væri af því að vera kominn til starfa á Íslandi þar sem elsta þing heims sé starfandi.
Að sögn Juholts hófst viðtalið á því að hann talaði um hvernig valið var á þingið á Þingvöllum og hvað lýðræðið ætti sér djúpar rætur bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Lýðræðið eigi að ræða á hverjum degi og mikilvægt sé að því sé haldið á lofti, að öðrum kosti geti hugsjónir sem það feli í sér verið í hættu.
Á nítjándu öldinni hafi stjórnmálaflokkar eins og íhaldsflokkar, jafnaðarmannaflokkar og kommúnistaflokkar orðið til í lýðræðisríkjum og hugmyndafræði þeirra verið höfð að leiðarljósi við kjör á lýðræðislega kjörnum fulltrúum á þjóðþing landa.
Eitt af því sem Juholt ræddi við blaðamanninn var staðan í bandarískum stjórnmálum þar sem forseti landsins, Donald Trump, er ekki stjórnmálamaður heldur kaupsýslumaður að mati Juholts.
Hann hefði jafnframt rætt um hvaða hætta væri fyrir hendi ef almenningur tæki ekki þátt í lýðræðisumræðunni og nauðsyn þess að halda lýðræðishugsjónum á lofti. Ef það væri ekki gert skapaðist hætta á að tæknihyggja tæki völdin. Það væri hlutverk stjórnmálamanna og embættismanna að halda lýðræðisumræðunni vakandi.
Samkvæmt frétt Svenska Dagbladet á laugardag á Juholt að hafa sagt að lýðræðisríkið væri komið af fótum fram og tók fjögurra ára gamlan son sinn sem dæmi.
„Þegar hann verður gamall býr hann ekki í lýðræðisríki heldur við tækniveldi eða ofríki. Þetta er þyngra en tárum taki. Mér þykir þetta leitt en ég er 100% viss. Við erum í ferli þar sem lýðræðið er gert óvirkt,“ segir Juholt í viðtalinu.
Síðar í viðtalinu segir Juholt að hann óttist ekki að Svíar eigi eftir að búa við einræði þar sem skriðdrekar aki um Sergel-torg í miðborg Stokkhólms heldur þar sem sérfræðingar ráða ríkjum og gildi borgaranna séu ekki höfð að leiðarljósi hjá þeim sem stýri landinu.
Lýðræðið sé að renna okkur úr greipum og sífellt færri vilji fara í framboð og á þing, segir Juholt. Á sama tíma séu stjórnmálaflokkarnir að þynna út stefnumál sín. Juholt hefur ekki skýrt þessi ummæli sín frekar en þau hafa valdið fjaðrafoki í Svíþjóð.
„Þetta er ótrúlegt. Það er hlutverk sendiherra og hlutverk ríkisstjórnar að bera út rétta mynd af landi okkar og koma landinu á framfæri við heiminn,“ segir Alice Bah Kuhnke, ráðherra menningarmála, í viðtali við TT-fréttastofuna. Hún segir það hins vegar í höndum utanríkisráðherra að tjá sig um ummælin.
Margot Wallström utanríkisráðherra svarar því til að hún deili ekki við neinn sendiherra landsins á opinberum vettvangi. Juholt muni fljótt læra hvað felist í því að vera sendiherra.
Gagnrýnin hefur komið úr ýmsum áttum stjórnmálanna. Karin Enström, talskona Moderataflokksins í utanríkismálum, segir í samtali við TT að sem sendiherra og helsti fulltrúi Svía á Íslandi gagnrýni Håkan Juholt ríkið sem hann á að kynna og standa fyrir á mjög sérstakan hátt.
Juholt tók við sem formaður jafnaðarmanna árið 2011 eftir mikið tap flokksins í kosningum árið á undan. Hann lét af störfum sem formaður flokksins eftir tíu mánuði en hann var harðlega gagnrýndur fyrir að þiggja húsnæðisstyrk vegna íbúðar í Stokkhólmi sem hann bjó í á þessum tíma ásamt unnustu sinni.