„Ég veit ekkert hvar mitt mál stendur“

„Í dag eru tæpir fjórir mánuði síðan ég kærði og …
„Í dag eru tæpir fjórir mánuði síðan ég kærði og veit ekkert hvar mitt mál stendur,“ segir Anna Katrín Snorradóttir, sem kærði Robert Downey fyrir kynferðisbrot. Ljósmynd/Aðsend

„Ég heiti Anna Katrín en ég er oft skilgreind í fjölmiðlum sem ein af brotaþolum Roberts Downey. En það skilgreinir mig ekki, ég er ekki brotaþolinn hans og ég þarf ekki nafnið hans til að skilgreina mig. Ég er ein af baráttukonum #höfum hátt og ég er hetja.“

Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Önnu Katrínar Snorradóttur sem er ein fjögurra kvenna sem greindi frá reynslu sinni af kynferðisofbeldi á málþingi á veg­um Pírata undir yf­ir­skrift­inni „Radd­ir þolenda – Kon­ur ræða kyn­ferðis­brot,“ sem fram fór í gær.

Anna Katrín lagði fram kæru í júlí gegn Robert Downey fyrir kynferðisbrot. Nú, tæpum fjórum mánuðum síðar, hefur hún enga hugmynd um hvar kæran er stödd í kerfinu.

„Ég hef reynt að hringja og fæ engin svör, það er ekki hringt til baka,“ segir Anna Katrín í samtali við mbl.is. Hún ætlar nú að hafa samband við réttargæslumann sinn og athuga hvort hann geti fengið einhver svör. „Ég bíð bara eftir því að fá bréf sent heim um hvort kæran fari í gegn eða málinu verði vísað frá.“

Blaðamaður mbl.is reyndi ítrekað að hafa samband við rannsóknardeild lögreglunnar um stöðu kærunnar en engin svör hafa borist.

Anna Katrín (lengst til hægri) er ein fjögurra kvenna sem …
Anna Katrín (lengst til hægri) er ein fjögurra kvenna sem greindi frá reynslu sinni af kynferðisofbeldi á málþinginu „Radd­ir þolenda – Kon­ur ræða kyn­ferðis­brot,“ sem fram fór í gær á vegum Pírata. Ljósmynd/Facebook

„Við erum frjálsar af glæpum hans“

Í erindi sínu í gær greindi Anna Katrín frá reynslu sinni sem brotaþola í íslensku samfélagi og reyndi meðal annars að svara því af hverju gengið verður til kosninga á laugardag. „Við erum hér samankomin vegna þess að eftir fjöldamörg ár af baráttu kvenna fékk íslenska samfélagið loksins nóg og sagði stopp við spillingu og stopp við kerfi sem verndar ofbeldismenn og hylmir yfir með þeim. Við erum hér vegna þess að saman sættum við okkur ekki við þöggun,“ sagði Anna Katrín meðal annars í erindi sínu.

Anna Katrín er sjötta konan sem steig fram og kærði Robert Downey fyrir kynferðisofbeldi. Robert Downey fékk upp­reist æru í júní en hann var fyr­ir níu árum dæmd­ur í 3 ára fang­elsi fyr­ir kyn­ferðis­brot gegn fjór­um stúlk­um.

Frétt mbl.is: Robert Downey kærður á ný

„Ég stend hér vegna þess að ég hafði hátt, ég tók þátt í baráttu með þremur hetjum, baráttu sem felldi ríkisstjórnina. Þessar hugrökku konur heita Nína, Halla og Glódís. Og þær eru hetjurnar mínar. Það eru mjög sorgleg bönd sem tengja okkur fjórar saman, en við vorum allar misnotaðar af sama brotamanni. En við látum það ekki kvelja okkur lengur, við erum frjálsar af glæpum hans og höfum öðlast sterka rödd sem við ætlum að halda áfram að nýta til að hafa hátt þar til réttlætið vinnur,“ sagði Anna Katrín.

Anna Katrín gagnrýndi framgöngu forsætisráðherra og dómsmálaráðherra í máli Roberts Downey og sakaði þá um að nýta brotaþolana í pólitískum tilgangi. „Saman komum við upp um skuggalega spillingu, spillingu sem var ekki til komin vegna peninga eða vinagreiða. Þessi spilling snerist um að æðstu embættismenn þjóðarinnar voru að vernda barnaníðinga,“ sagði Anna Katrín, og bætti hún síðar við: „Sannleikurinn er sá að þau voru að vernda orðspor sitt og völd flokks síns með því að hylma yfir með barnaníðingum á kostnað okkar, brotaþola.“

13 ár af sálarkvölum og vanlíðan

Anna Katrín lýsti í framsögu sinni hvernig henni tókst að sigrast á andlegu og kynferðislegu ofbeldi sem hún var beitt þegar hún var 14-17 ára. „En það tók mig 13 ár af sálarkvölum og vanlíðan að átta mig á því að ég hafði verið misnotuð, að sökin væri ekki mín.“

Til að breyta ríkjandi viðhorfi í samfélaginu um að ábyrgðin sé alfarið á brotaþolum í kynferðisofbeldismálum þarf að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir að mati Önnu Katrínar. Þær felist meðal annars í bættum forvörnum, fræðslu og meðferðarúrræðum fyrir gerendur. „Við þurfum að fara í langa og stranga herferð gegn kynferðisofbeldi og við þurfum fagaðila í það verkefni.“

Önnu Katrínu tókst að sigrast á andlegu og kynferðislegu ofbeldi …
Önnu Katrínu tókst að sigrast á andlegu og kynferðislegu ofbeldi sem hún var beitt þegar hún var 14-17 ára með því að opna umræðuna og hafa hátt. Ljósmynd/Aðsend

Ráðalaus í kæruferlinu

„Nú er komið að því að leita réttlætis, að kæra manninn sem rændi mig æskunni.“ Anna Katrín lýsti því hvernig hún var ráðalaus um hvert hún ætti að leita þegar hún hafði tekið ákvörðun um að kæra. „Ég var algjörlega týnd.“ Hún naut aðstoðar Nínu Bergsdóttur og fjölskyldu hennar, sem kært hafði Robert Downey fyrir kynferðisbrot og hún segir það ekki sjálfsagt að njóta aðstoðar annars brotaþola. „Þetta á ekki að vera svona flókið, þetta á að vera einfalt,“ segir Anna Katrín, sem fær ennþá hroll þegar hún hugsar um kæruferlið.  

Anna Katrín lýsti ferlinu þegar hún sagði sögu sína á lögreglustöðinni þar sem hún fékk faglegar móttökur sem hún er þakklát fyrir. Hún lýsti einnig þeirri óvissu sem hún glímir við eftir að kæran var lögð fram. „Í dag eru tæpir fjórir mánuði síðan ég kærði og ég veit ekkert hvar mitt mál stendur. Ég veit ekki hvort kæran verður felld niður eða hvort  sönnunargögnin eru næg til þess að fara með málið fyrir dóm. Mér var einnig sagt að það væri líklegt að gögnin sem myndu sanna mitt mál væru týnd eða skemmd.“

Meðal gagna sem Anna Katrín á við er minnisbók sem innihélt nafn hennar og símanúmer og var í eigu Roberts Downey og lögreglan lagði hald á í húsleit á heimili hans árið 2005.

„Við þurfum að spyrja af hverju það er í lagi að gögn sem geta sannað vitnisburð brotaþola séu ekki vernduð eins og æra þeirra sem brutu á þeim. Við brotaþolar eigum að hafa rétt á að nálgast öll gögn og allar upplýsingar um kæruferlið okkar. Við eigum að vera leidd í gegnum ferlið örugg og upplýst, við þurfum á því að halda. Við eigum ekki skilið að lifa í óvissu í marga mánuði. Eftir kæruferlið tekur síðan ekkert við hjá okkur brotaþolum,“ sagði Anna Katrín.

Heldur áfram að hafa hátt

Að lokum sagði Anna Katrín frá sinni framtíðarsýn. „Ég óska þess að í framtíðinni geti brotaþolar kynferðisofbeldis staðið ákveðin í fæturna og verið fullvissir um að á þeim var brotið um leið og brotið á sér stað og að þeir viti upp á hár hvert þeir geta leitað til sálrænnar og líkamlegrar aðstoðar. En til þess að ósk mín geti ræst þurfum við að halda áfram að hafa hátt, þar til við verðum fullkomlega sátt. Þess vegna hef ég hátt.“  

Hér má sjá upptöku frá málþinginu í heild sinni. Erindi Önnu Katrínar hefst á 1:37:10

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert