Tómas snýr aftur um áramótin

Tómas Guðbjartsson mætir aftur til starfa um áramótin.
Tómas Guðbjartsson mætir aftur til starfa um áramótin. mbl.is/RAX

Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir snýr aftur til starfa á Landspítalanum um áramótin. Hann var sendur í leyfi 7. nóvember „í ljósi heildarhagsmuna“ eins og það var orðað vegna aðildar hans að plastbarkamálinu.

„Það er búið að fjalla um hans mál og með honum og nú snýr hann til starfa,“ segir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans.

Hún segir að málið hafi þurft að hafa sinn farveg og föstum reglum hafi verið fylgt hjá spítalanum vegna þess. Tómas hafi þurft að fá tækifæri til að svara spurningum og þetta hafi verið niðurstaðan. „Þetta kemur engum á óvart í sjálfu sér en þetta þarf að hafa sinn farveg,“ segir Anna Sigrún og bætir við að margir hafi beðið eftir því að hann komi aftur til starfa.

Óskar snúinn aftur eftir leyfi

Óskar Einarsson, lungnalæknir á Landspítalanum sem eins og Tómas var meðhöfundur að grein skurðlæknisins Paolos Macchiarini um heilsufar Andemariams Teklesenbet Beyene sem lést eftir plastbarkaígræðslu, er jafnframt snúinn aftur til starfa hjá spítalanum eftir leyfi, að sögn Önnu Sigrúnar. „Menn þurftu tíma til að fara yfir málið eins og það birtist í skýrslu nefndarinnar.“

Fram kom í stöðuskýrslu hennar og Ólafs Baldurssonar, framkvæmdastjóra lækninga við Landspítalann, sem var birt í gær að umfjöllun um mál þriggja starfsmanna spítalans sem tengdust mest atburðaráðs málsins hafi verið afgreidd. Þeirri umfjöllun sé lokið af hálfu spítalans.

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mál þriðja starfsmannins löngu afgreitt

Mál þriðja starfsmannsins er að sögn Önnu Sigrúnar „löngu afgreitt aukamál“ sem kom upp vegna þess að plastbarkamálið var tekið aftur upp. Starfsmaðurinn starfar á heilbrigðis- og upplýsingatæknisviði Landspítalans og tók upp myndbönd af berkjuspeglunum Andemariams. Málið tengist sjúkraskrám og meðferð persónuupplýsinga. „Það þurfti að fara yfir þetta og skýra ferlana. Það var búið áður en skýrslan kom fram,“ segir hún og á við skýrslu rannsóknarnefndar sem forstjóri Landspítalans og rektor Háskóla Íslands skipuðu til að rannsaka plastbarkamálið. Henni var skilað sjötta nóvember.

Anna Sigrún Baldursdóttir.
Anna Sigrún Baldursdóttir. mbl.is/Sigurður Bogi

Öll málin eru fyrnd

Að sögn Önnu Sigrúnar voru mál starfsmannanna þriggja sem um ræðir öll fyrnd samkvæmt lögum um opinbera starfsmenn. Ef þurft hefði að koma til áminningar vegna málanna hafi sá tími verið löngu liðinn en þar er miðað við tvö ár. „Þetta mál kemst ekki í hámæli fyrr en tveimur og hálfu ári eftir að atburðurinn verður og viðbrögð okkar skýrast af því."

Hún bætir við að plastbarkamálinu sé ekki lokið af hálfu Landspítalans, frekar en annars staðar. Verið er að skoða ferla en suma þeirra var búið að laga áður en málið kom upp. Einnig verður fylgst grannt með framgangi málsins í Svíþjóð. Þar ætlar ríkissaksóknari að skoða mál Macchiarini á nýjan leik.

Macchiarini með plastbarka.
Macchiarini með plastbarka.

Kennir okkur að vera meira vakandi

Eins og kom fram í stöðuskýrslunni sem var birt í gær hefur Landspítalinn átt samtöl við Karólínska-sjúkrahúsið í Svíþjóð, þar á meðal forstjóra þess. „Það er áríðandi. Það var ýmislegt sem fór úrskeiðis af þeirra hálfu gagnvart okkar sjúklingi. Við þurfum að tryggja að svoleiðis gerist ekki gagnvart öðrum sjúklingum sem við erum að senda til þeirra. Þetta er gríðarlega mikilvægur samstarfsaðili okkar og við verðum að geta treyst öllum ferlum þar. Þetta kannski kennir okkur svolítið að vera meira vakandi,“ segir Anna Sigrún og nefnir að ýmislegt varðandi plastbarkamálið verði notað af Landspítalanum til að læra rækilega af.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert