Karlmaður á fertugsaldri lést í umferðarslysi á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi í dag, en þar rákust saman fólksbíll og flutningabíll. Tilkynning um slysið barst kl. 9.35, hinn látni var ökumaður fólksbílsins. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins, en ekki er unnt að greina frá nafni hins látna að svo stöddu.
Mikill viðbúnaður viðbragðsaðila var á vettvangi í morgun en slysið varð á tíunda tímanum. Opnað var aftur fyrir umferð um Vesturlandsveg upp úr klukkan 13 í dag en veginum var lokað í kjölfar slyssins.
Lögreglan biður þá sem kunna að hafa orðið vitni að slysinu að hafa samband í síma 444-1000, en einnig má senda upplýsingar í tölvupósti á netfangið birna.g@lrh.is eða í einkaskilaboðum á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.