Einn er í lífshættu og ellefu til viðbótar voru fluttir á sjúkrahús í tveimur eldsvoðum á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Um tíma vantaði sjúkrabíla til þess að koma fólki á sjúkrahús en allt tiltækt lið slökkviliðsins er að störfum. Slökkvistarfi er hvergi nærri lokið í Mosfellsbæ.
Að sögn varðstjóra í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins er tilkynnt um eldsvoða í fjölbýlishúsi í Bláhömrum í Grafarvogi um hálfþrjú í nótt. Þar hafði kviknað í íbúð á fjórðu hæð hússins og var fjöldi fólks lokaður inni í húsinu. Allar stöðvar slökkviliðsins fóru á staðinn og tókst fljótlega að bjarga manni út úr brennandi íbúðinni. Sá var fluttur með hraði á sjúkrahús en maðurinn er í lífshættu. Fjórir til viðbótar voru fluttir á sjúkrahús vegna gruns um reykeitrun auk þess sem tveir fóru á sjúkrahús með einkabílum enda skortur á sjúkrabílum.
Klukkan 2:52 var síðan tilkynnt um eld í einbýlishúsi við Bjargsveg en húsið heitir Reykjabraut og er innar en Reykjalundur. Þar höfðu allir íbúarnir, fimm talsins, komist út úr brennandi húsinu en þegar slökkviliðið kom á vettvang var ljóst að flytja þurfti alla á sjúkrahús vegna gruns um reykeitrun og skurða því fólkið hafði brotið sér leið út úr brennandi húsinu um glugga. Að sögn varðstjóra vaknaði fólkið við reykskynjara og ljóst að hann hefur bjargað lífi íbúanna í húsinu.
Gríðarlegur eldur er í húsinu og er slökkvistarf enn í gangi. Ekki er búist við því að því ljúki fyrr en eftir að þessari vakt lýkur hjá slökkviliðinu klukkan 7:30 en þá tekur ný vakt við slökkvistarfinu.