Stormurinn í beinni

Ekki er ólíklegt að fossar muni fjúka undir Eyjafjöllum seinna …
Ekki er ólíklegt að fossar muni fjúka undir Eyjafjöllum seinna í dag en spáð er að hviður með slagveðursrigningu fari í allt að 35 m/s undir Eyjafjöllum, á Reykjanesbraut og Kjalarnesi. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Gular og appelsínugular viðvaranir hafa verið gefnar út í öllum landshlutum vegna óveðurs sem gengur yfir landið í dag og fram á nótt. Hægt er að fylgjast með veðrinu í beinni hér fyrir neðan en spáð er stormi með slagveðursrigningu á landinu síðdegis í dag og fram á nótt. Fólk er hvatt til að fylgjast vel með veðurspá, ganga tryggilega frá lausum munum og kanna hvort niðurföll séu í lagi. 

„Það verður stormur með slagsveðursrigningu. Á höfuðborgarsvæðinu verður veðrið verst milli klukkan fjögur og fram yfir klukkan sjö í kvöld,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur Veðurstofu Íslands. 

Veðrið á eftir verður svipað því sem gekk yfir landið á þriðjudagsmorgun, að sögn Haraldar. Talsverðri úrkomu er spáð einkum á suðausturhluta landsins og á sunnanverðum Austfjörðum. Þar mun rigna í kvöld og fram á morgundaginn. 

„Flóð geta komið í ár og læki og vegir gætu rofnað líkt og gerðist í haust því vatnavextir verða talsverðir,“ segir Haraldur. 

Spáð er vaxandi suðaustanátt, 18-25 m/s síðdegis á Suður- og Vesturlandi með rigningu og hlýnandi veðri í dag. Það dregur hratt úr vindi suðvestan til í kvöld en hvessir þá norðan- og austanlands. 

Um klukkan 18 í dag verður rigning á öllu Suður-, Vestur- og Austurlandi og geta hviður með slagveðursrigningu farið í allt að 35 m/s á Reykjanesbraut, Kjalarnesi og undir Eyjafjöllum. 

Eftir rúma tvo sólarhringa er spáð öðrum stormi. Samkvæmt nýjustu spám gengur sá stormur yfir aðfaranótt sunnudags. „Það gæti einnig orðið endurtekið efni,“ segir Haraldur. Hann bendir á að sá stormur gæti komið á heppilegri tíma en þessi þar sem líklega verður bróðurpartur landsmanna sofandi þegar hann gengur yfir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert