72 m/s í hviðum í Kerlingarfjöllum

Kerlingafjöll úr lofti. Mjög vindasamt hefur verið á svæðinu síðustu …
Kerlingafjöll úr lofti. Mjög vindasamt hefur verið á svæðinu síðustu klukkustundir. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Nýr mælir Veðurstofu Íslands á Ásgarðsfjalli í Kerlingarfjöllum hefur mælt allt að 72 m/s í hviðum í nótt. „Þetta er ekki met en nálægt því,“ segir Árni Sigurðsson veðurfræðingur. Mikill vindhraði hefur mælst á mörgum stöðum á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess síðustu klukkustundir.

Mælirinn á Ásgarðsfjalli er á tindi fjallsins, skammt ofan við skíðaskálann, og var settur upp síðasta haust. Því eru ekki til samanburðarmælingar fyrir þennan tiltekna stað en ljóst að þarna er að finna vindasaman stað, að því er frumniðurstöður mælinga frá í nótt og morgun sýna. Allt frá miðnætti hefur meðalvindhraðinn verið frá 33 m/s upp í 47 m/s og hviðurnar öflugar eða frá 43 m/s og upp í 72 m/s. 

Veðurvefur mbl.is.

Þannig var vindurinn 49 m/s klukkan fjögur í nótt og 61-72 m/s í hviðum. Klukkan átta í morgun var vindhraðinn 51 m/s og allt að 66 m/s í hviðum.

Vindasamt hefur verið víða á höfuðborgarsvæðinu í nótt og morgun. Þá hefur vindhraðinn mælst 27,9 m/s á Stórhöfða í Vestmannaeyjum sem er mesti meðalvindhraði á láglendi, samkvæmt frumniðurstöðum sem fram koma á vef Veðurstofu Íslands. 

Bálhvasst hefur einnig verið á Reykjanesbraut. Vindur mældist 26 m/s klukkan sjö í morgun og 39 m/s í hviðum.

Vindhraði á Reykjanesbraut í nótt og morgun. Þar hefur vindur …
Vindhraði á Reykjanesbraut í nótt og morgun. Þar hefur vindur farið upp í 39 m/s í hviðum.

Nokkuð vindasamt hefur verið undir Akrafjalli en þar varð vindhraðinn 31 m/s í hviðum.

Vindhraðinn hefur farið upp í 31 m/s í hviðum undir …
Vindhraðinn hefur farið upp í 31 m/s í hviðum undir Akrafjalli. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Það var allhvasst á Mosfellsheiðinni í nótt og í morgun.

Á Mosfellsheiðinni jókst vindhraðinn í gærkvöldi og var orðinn 29 …
Á Mosfellsheiðinni jókst vindhraðinn í gærkvöldi og var orðinn 29 m/s í hviðum klukkan 8 í morgun. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Á Geldinganesi var einnig mjög hvasst og fór vindhraðinn í 34 m/s í hviðum. 

34 m/s í hviðum á Geldinganesi milli 7 og 8 …
34 m/s í hviðum á Geldinganesi milli 7 og 8 í morgun. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Þá blés einnig hressilega á Reykjavíkurflugvelli í morgun og þar var vindhraði í hviðum allt að 37 m/s.

Meðalvindhraði á Reykjavíkurflugvelli var á bilinu 22-24 m/s milli klukkan …
Meðalvindhraði á Reykjavíkurflugvelli var á bilinu 22-24 m/s milli klukkan 7 og 9 í morgun. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Veðrið á höfuðborgarsvæðinu er þegar tekið að ganga niður. „En það eru fleiri lægðir á leiðinni,“ segir Árni Sigurðsson veðurfræðingur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert