Háhýsi magna upp vind

Heiti potturinn lenti ofan í sandkassa og mölbrotnaði.
Heiti potturinn lenti ofan í sandkassa og mölbrotnaði. mbl.is/Hanna

„Það hefur verið stormur þarna, jafnvel eitthvað meira. Svo má bæta einhverju við út af 13. hæðinni,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, spurður út í veðrið í Kórahverfinu í Kópavogi í morgun þegar heitur pottur fauk niður af 13. hæð fjölbýlishúss.

Stormur jafngildir 20,8 til 24,4 metrum á sekúndu en rok er 24,5 til 28,4 metrar á sekúndu, samkvæmt mati vindhraða eftir Beufort-kvarðanum

Biluð veðurstöð

Hann segir að veðurstöðin á Hólmsheiði gefi alla jafna ágæta mynd af vindinum í efri byggðum, þar á meðal í Kórahverfinu, en því miður hafi hún verið biluð og því ekki getað sent frá sér gögn.

Að sögn Teits taka efstu byggingarnar fyrst við suðaustanáttinni. „Háhýsi eru til þess fallin að magna upp vind og ná í vind sem er ofar,“ segir hann en treystir sér ekki til að giska á vindhraðann á 13. hæð.

Langt í frá versta veðrið

Veðrið sem gekk yfir höfuðborgarsvæðið í nótt og í morgun segir hann langt í frá vera það versta í vetur. „Þetta var nokkuð heiðarlegur stormur eða rok. Það var nokkuð hvassara 5. nóvember síðastliðinn. Það er atkvæðamesta veðrið sem hefur komið hingað til í vetur en núna erum við að sigla inn í órólegan kafla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert