Slökkviliðið vann í morgun að því að moka burt rústunum af húsinu sem brann við Reykjabraut í Mosfellsbæ í nótt. Bálhvasst var á svæðinu sem gerði starfið vandasamt og áttu stórar bárujárnsplötur það til að fjúka í veðurofsanum. Enn rauk úr rústum hússins og sprautuðu slökkviliðsmenn vatni yfir þær.
Húsið var timburhús sem komið var til ára sinna og sögðu slökkvliliðsmenn að það liti út fyrir að hafa verið einangrað með sagi á einhverjum stöðum. Eldsmaturinn var því mikill og eyðileggingin alger. Upptök eldsins verða nú rannsökuð.
Í myndskeiðinu má sjá slökkviliðsmenn að störfum á vettvangi í morgun.
Í frétt RÚV kemur fram að fimm manna fjölskylda hafi bjargast út úr húsinu í gegnum svefnherbergisglugga.