Suðaustanátt verður austantil á morgun, 13-18 metrar á sekúndu fram á nótt og talsverð eða mikil rigning suðaustanlands. Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði og á miðhálendi.
Annars má búast við fremur hægri suðaustlægri átt og lítilsháttar rigningu, en suðlægari átt og smá skúrum eða éljum í nótt og á morgun.
Það kólnar í veðri og hiti verður á bilinu 0-5 stig, en frystir norðaustantil um kvöldið.
Þá er vissara að fylgjast með veðurspá næstu daga þar sem landið er á braut dýpstu vetrarlægða næstu daga, að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings.
Frétt mbl.is: Röð illviðra skellur á landinu næstu daga
Samkvæmt spákorti frá Evrópsku reiknimiðstöðinni er von á þremur suðaustanillviðrum með djúpum lægðum og leysingu. Veðrið gæti orðið enn verra en það hefur verið á suðvesturhorni landsins í morgun.
„Óvissan í spánum lýtur aðallega að tímasetningu þess hvenær þessar lægðir koma hérna upp að okkur,“ sagði Einar í samtali við mbl.is fyrr í dag. Líkt og spár gera ráð fyrir núna er von á djúpum lægðum á fimmtudag og aftur á laugardag.