Röð illviðra skellur á landinu næstu daga

Mjög djúp lægð mun líklega ganga upp að landinu á …
Mjög djúp lægð mun líklega ganga upp að landinu á laugardagskvöld. Mynd/Evrópska reiknimiðstöðin

„Við erum í braut dýpstu vetrarlægða núna næstu daga,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. Á facebooksíðu sinni birtir hann spákort frá Evrópsku reiknimiðstöðinni, sem gefa til kynna að við eigum í vændum þrjú suðaustan illviðri með djúpum lægðum og leysingu. Veðrið gæti orðið enn verra en það hefur verið á suðvesturhorni landsins í morgun.

„Það gæti alveg orðið það, já, ef spár fara á versta veg,“ segir Einar í samtali við mbl.is. „Óvissan í spánum lýtur aðallega að tímasetningu þess hvenær þessar lægðir koma hérna upp að okkur. Það eru tvær til þrjár og jafnvel fjórar lægðir sem koma upp að landinu með suðaustan og stundum sunnan illviðrum.“

Sérstaklega líst Einari illa á veðrið sem er spáð hér á laugardagskvöld, en þá mun mjög djúp lægð ganga upp að vesturströnd landsins. Meðalvindhraði gæti þá orðið á bilinu 23-28 metrar á sekúndu víðast hvar á landinu.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.

Þá er einnig gert ráð fyrir djúpri og krappri lægð suðvestan úr höfum á fimmtudagskvöld, sem mun gera feiknastorm úr suðaustri ef spáin gengur eftir. Kjöraðstæður eru fyrir myndun öflugra lægða um þessar mundir, að sögn Einars.

„Kalt loft frá Norður-Ameríku streymir út á Atlantshafið í veg fyrir hlýrra loft sem kemur úr suðri, í grennd við strönd Kanada og Nýfundnalands og við þær aðstæður verða skilyrði til myndunar djúpra vetrarlægða einkar góð. Síðan er líka fyrirstöðuhæð yfir Skandinavíu, sem lokar leiðinni, þannig að brautin liggur hér yfir okkur, aðallega fyrir vestan landið og lægðirnar taka út fullan þroska hér í grennd við landið,“ segir Einar.

Hann segir að spárnar geti tekið breytingum, en þó er það sérstaklega tímasetning verstu óviðranna sem sé óviss. Meiri vissa sé hins vegar fyrir því að lægðirnar verði djúpar og að þær fari hér hjá með einhverjum hætti.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka