Bæjarstjórn Akraness skorar á samgönguyfirvöld að bregðast nú þegar við ástandi Vesturlandsvegar á Kjalarnesi og veita frekari fjármuni til nauðsynlegra úrbóta vegna tvöföldunar vegkaflans.
Í ályktun bæjarstjórnar í gær segir að við núverandi ástand verði ekki unað.
„Vegamálastjóri hefur sjálfur stigið fram og sagt vegkaflann hættulegan og brýnt að aðskilja akstursstefnur. Þegar æðsti embættismaður vegamála á Íslandi lýsir því yfir að banaslys á tilteknum vegkafla sé kannski ekki mjög óvæntur atburður þá verður að bregðast við því með viðeigandi hætti,“ segir í ályktuninni.
Fram kemur að gert sé ráð fyrir 700 milljónum króna til endurbóta á Vesturlandsvegi í samgönguáætlun fyrir árinu 2015 til 2018.
„Þrátt fyrir auknar fjárveitingar í þágu umferðaröryggis í nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi er vegkaflanum um Kjalarnes raðað enn aftar í röðina en áður og einungis gert ráð fyrir að verja 200 milljónum til endurbóta með uppbyggingu hringtorgs við Esjumela, sem verður það áttunda í röð hringtorga frá Keldnaholti að Esjumelum.“
Í ályktunni segir að bæjaryfirvöld á Akranesi hafi margsinnis á undanförnum árum vakið athygli á brýnni nauðsyn þess að framkvæmdum á Vesturlandsvegi verði hraðað umfram áætlanir sem birtast í langtímasamgönguáætlun.
„Það er með öllu óviðunandi að árið 2018 sé enn verið að keyra Vesturlandsveg sem einu einbreiðu og óupplýstu þjóðleiðina út úr Reykjavík og er það ástand ekki í samræmi við áherslur stjórnvalda um forgangsröðun í þágu umferðaröryggis.“