Björgunarsveitir á suðvesturhorninu fóru samtals í 23 verkefni á meðan óveðrið gekk yfir á milli fjögur og sjö í kvöld. Það er nú að mestu leyti gengið niður og björgunarsveitarmenn sem komu að aðgerðastjórn viðbragðsaðila eru komnir til síns heima.
Samkvæmt upplýsingum frá Davíð Má Bjarnasyni, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, voru alls 135 manns sem bæði voru til taks og fóru í verkefni. Ekki fóru allir út úr húsi því verkefnin voru minni og færri en búist hafði verið við.
Verkefnin voru að mestu hefðbundin fokverkefni og vatnsverkefni þar sem stíflur höfðu myndast eða vatn flæddi á óæskilega staði. Þá voru hópar til taks við helstu leiðir til og frá borginni, ef til lokana kæmi. Ekki kom þó til þess. „Það var mikið vatn sem kom með þessu þannig það var að flæða inn í hús og nokkrar götur sem voru vel faldar undir vatni. Það var ekki mikið af fokverkefnum, þetta voru aðallega þakkantar og plötur á húsum og örfá laus tæki á vinnustöðum. Það voru þessi vatnsverkefni sem voru hvað helst óvæntust.“
Davíð telur bæði að veðrið hafi ekki orðið jafnslæmt og búist hafði verið við og að fólk hafi farið að tilmælum og hugað að lausamunum í kringum sig. „Það var byrjað að tala um þennan storm í gær og það mögulega skilaði sér. Fólk var kannski ekki að álpast út að óþörfu og var kannski búið að huga að lausamunum. Það var auðvitað stormur á þriðjudaginn og þá fauk eitthvað sem fauk ekki aftur. Þetta var bara hið besta mál og var frekar rólegt.“
Hvassviðrið hefur nú fært sig bæði norður og austur og segir Davíð menn þar aðallega vera að velta fyrir sér mögulegum áhrifum af vatnselgnum sem fylgir. Búast má við mikilli úrkomu suðaustanlands allan morgundaginn og fram á kvöld og varað hefur verið við vexti í ám og vötnum.