Ekki hundi út sigandi

Börn ættu ekki að vera mikið ein á ferðinni síðdegis …
Börn ættu ekki að vera mikið ein á ferðinni síðdegis á höfuðborgarsvæðinu þegar óveðrið skellur á. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spáð er slagveðri á höfuðborgarsvæðinu síðdegis, suðaustan 18-25 metrum á sekúndu og úrhelli. Veðrið verður verst frá 16.30 og 19:30 og gildir appelsínugul viðvörun sem þýðir að samgöngur geta raskast og hætt við foki á lausamunum. „Ekki hundi út sigandi,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is í morgun.

Spáin er svipuð fyrir Faxaflóasvæðið en þar er spáð suðaustan 18-25 m/s. Samgöngur geta raskast og hætt við foki á lausamunum. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, t.d. á Kjalarnesi og við Hafnarfjall.

Spáð er suðaustanstormi síðdegis á Suður- og Vesturlandi, en í kvöld norðan- og austanlands. Mesta veðurhæðin stendur væntanlega yfir í 3 til 4 klukkustundir í hverjum landshluta, segir á vef Veðurstofu Íslands.

Á Suðausturlandi og Austfjörðum fer veðrið að versna í kvöld og þar má búast við mjög slæmu veðri í heilan sólarhring. Teitur segir að þar muni rigna mjög mikið, allt frá því í kvöld og þangað til annað kvöld. Miklir vatnavextir í ám og lækjum fylgi úrhellinu sem getur raskað samgöngum í fjórðungnum. 

Meðalvindhraðinn yfir 60 metrar á sekúndu

Varað er við ferðalögum um miðhálendið er þar er spáð suðaustan 23-30 m/s og blindhríð. Teitur segir að í hvellinum á þriðjudag hafi vindhraðinn farið í 72 metra á sekúndu í Kerlingarfjöllum en meðalvindhraðinn verið yfir 60 metrar á sekúndu sem er með því mesta sem hefur mælst á Íslandi. Um er að ræða nýjan mæli Veðurstofunnar og er hann í 925 metra hæð sem þýðir að hann er næsthæsti veðurmælir Veðurstofunnar. Sá sem er í mestri hæð er á Gagnheiði fyrir austan og þar hefur mælst mesti vindhraði frá því mælingar hófust á Íslandi. 

Að sögn Teits hefur verið farið yfir gögnin frá mælinum í Kerlingarfjöllum frá því á þriðjudag og ekkert sem bendir til annars en að þau séu rétt en vindhraðinn er sá næstmesti sem mælst hefur á Íslandi.

Teitur segir að mjög hlýtt veður fylgi lægðinni og hér verði hlýtt í veðri þangað til líður á laugardag sem þýðir að hálkan hverfur en þá fer að snjóa. Mjög kalt loft er á leiðinni til landsins og frosti spáð um allt land á sunnudag. 

„Nú er vaxandi lægð suðvestur í hafi sem nálgast okkur óðfluga og það hvessir af hennar völdum þegar kemur fram á daginn. Það gengur í suðaustanstorm seinnipartinn á Suður- og Vesturlandi. Dregur hratt úr vindi suðvestan til í kvöld, en þá hvessir norðan- og austanlands. Lægðin ber með sér hlýtt loft þannig að úrkoman sem henni fylgir verður á formi rigningar á láglendi. 

Á Suðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum er spáð mikilli rigningu í kvöld og verður væntanlega úrhelli á þeim slóðum alveg þangað til annað kvöld og því eru líkur á vatnsflóðum á svæðinu. 

Ef við reynum að finna eitthvað jákvætt við veðurspá dagsins, þá má nefna að hlýindin í dag og á morgun ættu víða að vinna bug á hálkunni,“ segir á vef Veðurstofu Íslands. 

Veðurspáin fyrir næstu daga

Áfram hvasst og vætusamt á morgun, en fremur hlýtt. Áfram mikil úrkoma suðaustan til þangað til annað kvöld.

Á föstudag:

Sunnan og suðaustan 18-23 m/s, en hægari vestanlands. Víða rigning, mikil suðaustan til á landinu. Hiti 4 til 12 stig, hlýjast á Norðausturlandi. Snýst í suðvestan 13-18 vestanlands um kvöldið með skúrum eða slydduéljum og kólnandi veðri og fer þá að draga úr rigningu á Suðausturlandi. 

Á laugardag:
Suðvestan og sunnan 10-18 og skúrir eða él, en léttskýjað á norðaustanverðu landinu. Slydda eða rigning á Suður- og Vesturlandi um kvöldið. Hiti 0 til 4 stig. 

Á sunnudag:
Hvöss suðvestanátt með slyddu eða snjókomu og síðar éljum, en léttir til austanlands síðdegis. Kólnandi veður. 

Á mánudag, þriðjudag og miðvikudag:
Norðvestlæg átt og snjókoma eða él norðan til á landinu, annars úrkomulítið. Frost 2 til 10 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert