Stórhættulegt er að vera gangandi og hjólandi á höfuðborgarsvæðinu vegna hálku. Þegar hafa þó nokkrir leitað til bráðamóttökunnar og talsvert hefur verið um sjúkraflutninga vegna hálkuslysa í morgunsárið.
Sigurður Ingvar Geirsson, yfirverkstjóri hjá umhverfissviði Reykjavíkurborgar, segir að unnið hafi verið að því að sanda stíga og gangstéttar í borginni frá því um miðja nótt en vegna úrkomu renni sandurinn þegar af og skapi stórhættu fyrir alla þá sem eru gangandi. Hann segir stórhættulegt að vera á ferðinni eins og staðan er þessa stundina enda myrkur og hálkan lúmsk í tveggja stiga hita og rigningu.
Þrettán vinnuvélar hafa verið að störfum í Reykjavík frá því á fjórða tímanum í nótt við að sanda og salta gangstéttar og göngu- og hjólastíga. En vegna veðurskilyrða hefur sandurinn lítið að segja. Borgarstarfsmennirnir hafa samt ekki gefist upp og halda áfram að sanda stíga þrátt fyrir hlýindi og úrkomu.
Við veðurskilyrði sem nú eru er salt það eina sem dugar og eru íbúar hvattir til að salta tröppur og í kringum hús sín en salt hefur ekki verið notað á gangstéttir í Reykjavík í mörg ár enda eyðileggur saltið fljótt steypu og malbik.
Töluvert hefur verið um sjúkraflutninga í morgun vegna hálkuslysa að sögn varðstjóra í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og segir hann ástandið víða mjög slæmt.
Hjalti Már Björnsson bráðalæknir á bráðamóttöku Landspítalans segir að veturinn hafi verið sérstaklega erfiður varðandi hálkuslys á deildinni og hvetur hann fólk eindregið til þess að nota mannbrodda og fara varlega. Ekki síst þegar skuggsýnt er. Á níunda tímanum höfðu þó nokkrir leitað til bráðamóttökunnar vegna hálkuslysa.
Að sögn Hjalta hefur verið töluvert um að fólk hafi beinbrotnað og jafnvel hlotið alvarlega áverka þegar það hefur dottið í hálkunni í vetur.
Á dögum sem þessum, þegar hálkan er jafn mikil og raun ber vitni þrátt fyrir að starfsmenn borgarinnar séu á fullu við að sanda og salta, eykst álagið mjög á starfsfólk bráðamóttökunnar og mikilvægt að fólk fari sérstaklega varlega.
Í dag er spáð suðaustan stormi á höfuðborgarsvæðinu, eða 18-25 m/s, og verður veðrið verst á tímabilinu frá kl. 16:30 – 19:30.
„Í svona veðri geta samgöngur raskast og hætt er við foki á lausamunum. Við hvetjum fólk til að fylgjast vel með veðurspám og haga ferðum sínum í samræmi við þær, en Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir höfuðborgarsvæðið,“ segir í færslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á Facebook.
Hér eru upplýsingar um hvar er hægt að nálgast sand og salt í Reykjavík