Varað við staðbundnu flóði

Vatnavextir verða talsverðir á þessu svæði.
Vatnavextir verða talsverðir á þessu svæði. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Spáð er mikilli rigningu sunnan og suðaustanlands með hlýindum seinni partinn í dag, fimmtudag, og fram á annað kvöld. Mesta úrkoman verður á svæðinu frá Öræfum í vestri og að Seyðisfirði í austri. Varað er við vexti í ám sérstaklega í Lóni og Álftafirði. Búast má við staðbundnum flóðum á þessu svæði.

Úrkoman verður mest í kringum fjöll og jökla sunnan- og suðaustanlands og þar gæti sólarhringsafrennsli (samanlögð úrkoma og snjóbráðnun) farið vel yfir 250 mm. Þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofunnar. 

Hugi að niðurföllum og frárennslisrörum 

Einnig má búast við talsverðum áhrifum við austurströndina allt norður til Seyðisfjarðar.
Aftur má búast við töluverðri rigningu á þessu svæði á laugardagskvöld en styttir upp á sunnudag. Hafa skal þetta í huga áður en ferðalög eru skipulögð og fólki er bent á að athuga vel færð á vegum á síðu Vegagerðarinnar.

Mælt er með að fólk hugi að niðurföllum og frárennslisrörum og hreinsi frá svo vatn eigi sem greiðasta leið. Samfara aukinni úrkomu og afrennsli geta líkur á skriðuföllum aukist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka