Veðrið náð hámarki suðvestanlands

Óveðrið færist nú austur og norður yfir landið.
Óveðrið færist nú austur og norður yfir landið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Veðrið hefur náð hámarki á suðvesturhorninu og uppúr klukkan sjö mun fara að draga verulega úr veðurofsanum. Enn er hinsvegar að hvessa á Norður- og Austurlandi og má víða þar búast við stormi í kvöld. Þetta segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Appelsínugul viðvörun er í gildi á suðvesturhorni landsins og á Suður- og Suðausturlandi.

Haraldur segir spána ekki mikið hafa breyst og tekur fram að mikil úrkoma fylgi hvassviðrinu á austanverðu landinu í kvöld og allan morgundaginn, alveg þangað til annað kvöld. Varað hefur verið við vexti í ám og vötnum, sérstaklega í Lóni og Álftafirði og segir Haraldur þurfa að fylgjast vel með því.

Hann segir spána hafa gengið eftir í stórum dráttum en búast má við annarri lægð strax aftur á laugardagskvöld. „Það er enn ekki vitað hve kröftug hún verður, en það gætu orðið leiðindi úr því seint á laugardagskvöld.“ Lægðarinnar verður þá fyrst vart suðvestanlands en hún mun svo ganga yfir allt landið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert