Skagamaðurinn Bjarnheiður Hallsdóttir stofnaði Facebook-hópinn Til öryggis á Kjalarnesi í fyrradag og eru meðlimirnir strax orðnir um 3.000 talsins.
„Ég keyri sjálf á milli nánast á hverjum einasta degi og hef gert í tíu ár. Á þessum tíu árum hefur orðið gríðarleg breyting bæði á umferðarþunganum og ástandinu á veginum,“ segir Bjarnheiður.
„Í fyrsta skiptið núna í vetur gerðist eitthvað í veginum. Það er eins og hann hafi tekið svakalegt stökk niður á við. Ég er í fyrsta skipti á ævinni hrædd við þennan veg.“
Bjarnheiður hefur komist að því að mjög margir eru sama sinnis og hún. „Fólk er orðið ragt við að keyra þetta. Vegurinn er alltaf vondur en verður lífshættulega vondur þegar aðstæður eru þannig eins og til dæmis í miklu votviðri og vondu skyggni,“ bætir hún við og nefnir djúp hjólför sem hafa myndast á veginum.
Um sjö þúsund bílar aka um veginn á degi hverjum og fer fjöldinn upp í allt að 14 þúsund á sumrin. Vegurinn um Kjalarnes er auk þess eina stofnæðin út frá Reykjavík sem ekki hefur verið breikkuð.
Að sögn Bjarnheiðar gerði það útslagið að í síðustu fjárlögum var framkvæmdafé til Vesturlandsvegar um Kjalarnesið skorið niður. Einu framkvæmdirnar sem eru fyrirhugaðar eru hringtorg við Esjumela.
„Það virðist ekki vera skilningur fyrir þessu. Maður undrast þessa forgangsröðun alveg rosalega. Ég held að þetta sé þriðji fjölfarnasti vegurinn á landinu og hann á að fá eitt hringtorg sem enginn er að biðja um,“ segir hún og telur veginn lífshættulegan.
„Það eru mjög margir til í að láta verkin tala núna og gera kröfu á stjórnvöld um að það verði farið í einhverjar úrbætur. Það má engan tíma missa, þetta er tikkandi tímasprengja,“ segir Bjarnheiður.
Fyrr í vikunni sendi bæjarstjórn Akraness frá sér ályktun þar sem samgönguyfirvöld voru hvött til þess að veita fjármuni til nauðsynlegra úrbóta vegna tvöföldunar vegkaflans.
Um 3.000 manns hafa einnig tekið þátt undirskriftasöfnun á netinu þar sem þess er krafist að farið verði strax í umbætur á veginum.
„Vegurinn um Kjalarnes er sannkölluð slysagildra og í algjörum ruslflokki og þarfnast tafarlausra endurbóta,“ segir á vefsíðunni með undirskriftunum.