Ekki komið upp eldur frá því um fjögur

Til­kynning barst um eld í Hellisheiðarvirkjun um hálfell­efuleytið í gærmorgun …
Til­kynning barst um eld í Hellisheiðarvirkjun um hálfell­efuleytið í gærmorgun og unnu um 80-90 manns að slökkvistörf­um þegar mest lét. mbl.is/Hanna

„Við erum bara að bíða eftir að rannsóknarlögregla komi á staðinn og taki við svæðinu, en við teljum að búið sé að slökkva eldinn,“ segir Hauk­ur Grönli, aðstoðarslökkviliðsstjóri Bruna­varna Árnes­sýslu, sem staðið hefur vaktina í Hellisheiðarvirkjun ásamt öðrum slökkviliðsmönnum hjá Brunavörnum Árnessýslu.

Til­kynning barst um eld í Hellisheiðarvirkjun um hálfell­efuleytið í gærmorgun og unnu um 80-90 manns að slökkvistörf­um þegar mest lét, en á tíma­bili voru a.m.k. fimm slökkvi­bíl­ar á vett­vangi.

Brunavarnir Árnessýslu stóðu síðan vaktina í Hellisheiðarvirkjun í alla nótt ef svo færi að eldur leyndist enn í virkjuninni. Að sögn Halldórs hefur hins vegar ekki komið upp eldur frá því  um fjögur í gærdag.

Fóru reglulega upp með hitamyndavélar í nótt

„Við sendum slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og allt viðbragð annað en Brunavarnir Árnessýslu heim um fjögurleytið í gær. Skömmu síðar blossaði eldur upp aftur.“ Hann segir þó ekki hafa verið um stórvægilegan eld að ræða. „Það er hins vegar ástæða þess að við erum með svona vakt. Síðan vorum við með vakt hér í alla nótt sem fór reglulega upp með hitamyndavélar og skoðaði aðstæður.“

Halldór segir reyk hafa sést við og við og að hann hafi þá verið skoðaður, en að ekki hafi komið aftur upp eldur í byggingunni.

Von er síðan á rannsóknardeild lögreglu sem sér um brunarannsóknir hvað úr hverju og tekur deildin þá við vettvanginum og störfum slökkviliðsmanna lýkur.

Eldsupp­tök­ eru enn ókunn, en eld­ur­inn logaði í um tvo tíma í loftræsti­búnaði og þaki miðhluta stöðvar­húss­ins, þar á meðal þakpappa sem gaf frá sér tals­verðan reyk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert