Vettvangur rannsakaður í dag

Skemmdirnar á þaki Hellisheiðarvirkjunar eftir brunann.
Skemmdirnar á þaki Hellisheiðarvirkjunar eftir brunann. Ljósmynd/Orka náttúrunnar

Lögreglan á Suðurlandi var á vettvangi brunans í Hellisheiðarvirkjun í dag til að rannsaka eldsupptök auk þess sem starfsmenn Orku náttúrunnar unnu að því að koma í veg fyrir frekari skemmdir á húsinu.

Í eldinum urðu skemmdir á þaki stjórnstöðvarhússins, en eldurinn kom upp í loftræstingu á hæðinni fyrir ofan jarðhitasýninguna sem einnig er í húsinu. Segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orku náttúrunnar, að vegna veðurs hafi menn búið við takmarkaða kosti á viðbrögðum í dag, en reynt hafi verið eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að úrkoma og veður nái um allt húsið.

Tveimur vélum sem framleiða rafmagn í stöðinni var slegið inn í gær og í dag eftir að hafa slegið út í eldinum og þá var rétt fyrir hádegi slegið inn svokallaðri varmavél, en hún sér höfuðborgarbúum fyrir um tíunda hluta af því heita vatni sem notað er á svæðinu. Segir Hjálmar að öll framleiðsla sé komin í hefðbundið horf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert