Leyfileg dýpt hjólfara 50 mm eftir hrun

Rák í Vesturlandsvegi. Mynd úr safni. Vegagerðin segir brýna þörf …
Rák í Vesturlandsvegi. Mynd úr safni. Vegagerðin segir brýna þörf á viðhaldi á um 7,5 km kafla á þeim hluta Vesturlandsvegarins sem nær frá hringtorginu við Þingvallaveg og upp að Hvalfjarðargöngum mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Brýn þörf er á viðhaldi á um 7,5 km kafla á þeim hluta Vesturlandsvegarins sem nær frá hringtorginu við Þingvallaveg og upp að Hvalfjarðargöngum og verður fyllt upp í hjólförin næsta sumar. Í svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn mbl.is, segir að stofnunin geri sér fulla grein fyrir alvarleika ástandsins, en samkvæmt viðhaldskerfi stofnunarinnar þurfi að verja 240 milljónum í viðhald slitlagsins, sem sé 7% af heildarfjárveitingum til viðhalds bundinna slitlaga.

Vefurinn Skagafrettir.is fjallaði í gær um dýpt hjólfara á Vesturlandsvegi og gerðu forsvarsmenn vefjarins óvísindalega könnun á dýpt hjólfara á þremur stöðum á Vesturlandsvegi á Kjalarnesinu.

„Staðirnir voru valdir af handhófi eða réttara sagt – þar sem við gátum komið okkur fyrir með skömmum fyrirvara og án þess að skapa stórhættu á veginum,“ að því er segir í fréttinni.

Reyndist dýpt hjólfaranna 28 mm við útskot þar sem vegaeftirlitið er með aðstöðu rétt við afleggjarann inn í Hvalfjörð. Þá mældust hjólförin á tveimur stöðum skammt frá Grundarhverfinu 34 mm og 32 mm djúp að því er segir í fréttinni.

Benda Skagafréttir enn fremur á að í ritgerð sem Birkir Hrafn Jóakimsson hafi skrifað um hjólför í íslensku malbiki í námi sínu í Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóli Íslands árið 2014, hafi m.a. komið fram að leyfileg hjólfaradýpt í malbiki sé 25 mm.

Fjárfesta í vegaskanna til að mæla dýpt

Í svörum frá Vegagerðinni segir að fyrir hrun og niðurskurð í fjárveitingum vegna vegaframkvæmda hafi verið miðað við að hjólför yrðu ekki mikið meiri en 20 mm. Þeirri skilgreiningunni hafi hins vegar verið breytt eftir hrun og þá miðað við að þau mættu ekki vera dýpri en 50 mm.

„Þrátt fyrir að nokkuð hafi verið aukið í fjárveitingar til viðhalds hefur það ekki verið nóg til þess að þessum skilgreiningum hafi verið breytt þótt við teljum það vissulega æskilegt,“ segir í svari stofnunarinnar.

Í dag sé notast við sjónrænt mat við skoðun á slitlagi, en farið og mælt með réttskeið og málbandi ef talin er þörf á. Vegagerðin sé hinsvegar að fjárfesta í veggreini, svo nefndum Road Scanner þannig að hægt verði að mæla dýptina nákvæmlega með því að aka vegina með veggreininum.

Þá sé horft til næstu ára varðandi allar viðhaldsframkvæmdir vega og mið tekið af því, ef til stendur að byggja nýja vegi eða endurbyggja. „Það er gert til að forða því að varið sé fé í viðhald sem síðan nýtist ekki. Þessi kafli frá hringtorginu við Þingvallaveg og upp að Hvalfjarðargöngum er þessu marki brenndur.“

Féð ekki komið á fjárlögum 

Þar hafi staðið til framkvæmdir sem samþykkt var að fara í á Samgönguáætlun áranna 2015-18, sem Alþingi samþykkti haustið 2016. „En endurbætur og breikkun í 2+1 veg stendur til á stærsta hluta þessa kafla. Fé hefur hinsvegar ekki komið til framkvæmdarinnar á fjárlögum. Það hefur sett viðhaldið í svolitla klemmu,“ segir í svörum Vegagerðarinnar.

Eigi að síður hljóði viðhaldsáætlunin í sumar upp á viðhald á þessum kafla, þ.e.a.s. hjólfarafyllingu eða þunna endurlögn [e. Repave], en báðar þessar aðferðir séu „viðurkenndar viðhaldsaðferðir en með öllu skemmri líftíma en heil yfirlögn. Þannig að fyllt verður í hjólförin í sumar.“

„Sú vegalengd á þessum kafla sem þarfnast brýns viðhalds er um 7,5 km og gerir Vegagerðin sér fulla grein fyrir alvarleika ástandsins, viðhaldskerfið okkar segir að þarna þurfi að verja 240 milljónum í viðhald slitlagsins sem er 7% af heildarfjárveitingum til viðhalds bundinna slitlaga.“

Opinn fundur verður haldinn um samgöngumál á Vesturlandi í kvöld kl. 18 í Tónbergi, sal Tónlistarskólans á Akranesi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert